Borútboð Orkuveitunnar

Orkuveitan hefur nú hafið útboðsferli á verkframkvæmd borverkefna til rannsóknar á nýjum jarðhitasvæðum og forðaöflunar á hitaveituvatni. Orkuveitan stefnir að því að bora 35 nýjar rannsóknar- og vatnstökuholur fyrir lok árs 2028. Útboðið er það stærsta á sviði vatnsöflunar á síðari árum.

on_7687_borhola-mosi-1100x733.jpg

Markmið útboðsins er að tryggja forðamál hitaveitunnar og rannsaka ný svæði á hagkvæman og umhverfisvænan hátt. Til verksins verður notaður rafmagnsbor og með því að samþætta útboðsverkin erum við að efla fyrirsjáanleika og skapa aukin tækifæri til hagræðingar. Þá teljum við að stærðargráða útboðsins leggi grundvöll fyrir fjárfestingu verktaka í rafmagnsbor og hvetji til örvunar á eftirsókn markaðsaðila.

Þá vonumst við til þess að með þessu séum við að örva tækniþróun á þessum vettvangi með ábata fyrir þjóðfélagið.

Útboðinu er skipt í þrjá flokka eftir stærðarkröfu á bortæki:

  1. 25 tonna lyftigeta
    Rannsóknarholur, ætlaðar til könnunar á nýjum svæðum, með þeim möguleika að víkka þær út og notast sem vatnstökuholur.
  2. 60 tonna lyftigeta
    Rannsóknarholur á nýjum svæðum í Henglinum og vatnstökuholur.
  3. 100 tonna lyftigeta
    Stefnuboraðar vatnstökuholur til öflunar á auknum forða Hitaveitunnar.

Verkefnastjóri er Símon Þorleifsson hjá Orkuveitunni og útboðið sem unnið er með KPMG fer fram á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og stendur opið til 20. september 2024

Frekari upplýsingar eru aðgengilegar á útboðsvef Orkuveitunnar: ORVK-2024-01 Geothermal Drilling Works.

Sævar-Freyr---Breyttur-bakgrunnur.jpg

„Orkuveitan vinnur markvisst að því að auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku í átt að kolefnishlutlausri framtíð sem á að vera markmið okkar allra. En með þessu erum við einnig að styðja við vaxandi samfélög, heimili og atvinnulíf. Stærðargráðan á útboðinu er staðfesting á því að við ætlum okkur að auka hér framboð á orku verulega á næstu árum.“

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar

Sólrún.jpg

„Þetta útboð er afar mikilvægt skref í þeirri vinnu okkar að tryggja forðamál Hitaveitunnar til næstu ára. Við sjáum það með ört stækkandi samfélagi og aukinni notkun hvað fyrirsjáanleikinn skiptir miklu máli. Útboðið samræmist vel stefnu Veitna um að hafa frumkvæði að sjálfbærum lausnum með árangur samfélagsins að leiðarljósi. Með nýsköpun og samstarfi veitum við lífsgæði til framtíðar.“

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna

Árni Hrannar.jpg

„Orka náttúrunnar hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem framleiðandi og seljandi rafmagns til allra landsmanna og framleiðandi heits vatns sem selt er til Veitna. Þar sem eftirspurn eftir rafmagni er alltaf að aukast, bæði vegna orkuskiptanna og aukins fólksfjölda, auk þess að við viljum ná þeim loftlagsmarkmiðum sem þjóðin hefur sett sér, þurfum við að framleiða meira rafmagn hér á landi. Útboðið er því mikilvægt til að auka orkuöflun og viðhalda framleiðslu og sölu á rafmagni á ábyrgan og umhverfisvænan hátt til allra landsmanna."

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar

Hera.jpg

„Jarðhiti er takmörkuð auðlind og það er á okkar ábyrgð að fara vel með orkuna svo komandi kynslóðir geti notið sömu lífsgæða og við. Það er mikil óvissa í uppbyggingu jarðvarmavinnslu og því þarf að huga sérstaklega vel að öflun orku með jarðhita, enda ómögulegt að átta sig á auðlindinni öðruvísi en með rannsóknum á ólíkum svæðum, sem er bæði kostnaðarsamt og umfangsmikið verkefni. Þó að yfirborðs rannsóknir og líkön gefi vísbendingar um auðlindina er engan veginn hægt að staðfesta tilvist hennar né magn nema með rannsóknarborunum. Þessar boranir skipta því ekki bara Orkuveituna miklu máli heldur einnig fyrir heimili og fyrirtæki hér á landi."

Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar Orkuveitan

ingvi-p.png

„Að fara vel með auðlindirnar okkar er okkur hjartans mál. Aðeins með því að nýta þær með eins sjálfbærum hætti og hægt er tryggjum við langlífi þeirra og að þær verð til staðar fyrir komandi kynslóðir. Bætt nýting þeirra auðlinda og auðlindasvæða sem við nýtum í dag er því í forgrunni. Boranir Orkuveitunnar á næstu árum miða að því að rannsaka ný jarðhitasvæði, bora nýjar vinnsluholur í svæði í nýtingu og að endurnýja holur sem hafa þjónað okkur í áratugi."

Ingvi Gunnarsson, forstöðumaður auðlindastýringar Orkuveitunnar

Þráinn Friðriksson.jpg

„Á undanförnum árum hafa Veitur og Orkuveitan lagt mikla vinnu í að kortleggja mögulega forðakosti til að mæta þörfum hitaveitunnar til framtíðar. Þessi vinna hefur leitt í ljós að jarðhitavatn frá lághitasvæðum er hagkvæmasti kosturinn fyrir hitaveitur en heitt vatn frá háhitavirkjunum er öruggur kostur og auðlindin stór. Í báðum tilfellum er þó umtalsverð óvissa um stærð og eðli auðlindanna. Það þarf alltaf að leggja í tímafrekar og kostnaðarsamar rannsóknir áður en stærð og eðli jarðhitaauðlinda liggur fyrir. Því er nauðsynlegt að hefja þessar rannsóknir snemma til að sem bestar upplýsingar liggi fyrir þegar taka þarf ákvörðun um forðaaukandi aðgerðir. Ef slíkar ákvarðanir eru teknar í skortstöðu leiðir það óhjákvæmilega til þess að öruggir en mögulega óhagkvæmir kostir verði fyrir valinu. Því eru Veitur og Orkuveitan nú að undirbúa átak í rannsóknarborunum á bæði lághita- og háhitasvæðum til að minnka auðlindaóvissu eins og hægt er, til að tryggja að aukning aflgetu hitaveitunnar verði gerð með eins hagkvæmum hætti og frekast er unnt."

Þráinn Friðriksson, jarðefnafræðingur og leiðtogi jarðhitarannsókna hjá Orkuveitunni