Orkuveitan | Góð afkoma Orkuveitunnar á fyrsta ársfjórðungi 

26. maí 2025

Orkuveitan

Orkuveitan (Orkuveita Reykjavíkur) skilaði 4,5 milljarða króna hagnaði fyrstu þrjá mánuði ársins samkvæmt árshlutauppgjöri samstæðunnar sem samþykkt var af stjórn í dag. Á sama tímabili árið 2024 var hagnaðurinn 2,9 milljarðar króna. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.þetta 

Tekjur fyrirtækjanna í samstæðunni jukust á tímabilinu um 7% frá fyrra ári og gjöld lækkuðu um sama hlutfall. Þrátt fyrir að launakostnaður hafi aukist milli ára þá lækkaði annar rekstrarkostnaður og á ársfjórðungnum fékk Orka náttúrunnar endurgreiddar um 450 milljónir króna vegna leiðréttingar á gjaldskrá Landsnets. 

Veltufé frá rekstri nam 9,4 milljörðum króna en var 8,0 milljarðar á sama tímabili 2024. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum héldust svipaðar milli ára og námu nú 6,4 milljörðum króna. Mestar voru þær hjá Veitum, einkum tengdar eflingu hitaveitna til skemmri og lengri tíma. 

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, er ánægður með rekstrarniðurstöðuna. „Styrkur Orkuveitunnar til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar er mikill og vaxandi. Afkoman er góð og það er jákvætt að sjá vaxtagjöldin loksins lækka,“ segir Sævar Freyr.  



Tengiliður: 

Snorri Hafsteinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Fjármála Orkuveitunnar 
516 6100 
snorri.hafsteinn.thorkelsson@orkuveitan.is 


Viðhengi