Ábyrg jarðvarmanýting á Our Climate Future

16. okt 2025

Orkuveitan

Á dögunum tóku fulltrúar frá Orkuveitunni, Veitum, Carbfix og ON þátt í ráðstefnunni Our Climate Future sem haldin var í Brussel á vegum Grænvangs, Íslandsstofu og íslenska sendiráðsins í Belgíu.

Á ráðstefnunni var áherslan á ýmis álita- og hagsmunamál íslenskra fyrirtækja sem varða orkumál, og þá sérstaklega jarðhita og nýtingu hans. Áhugi á jarðhitanýtingu hefur farið vaxandi undanfarið, sem hefur skilað sér í miklum áhuga á íslenska orkugeiranum og þeirri staðreynd að á Íslandi komi rafmagn og hiti fyrir heimili og fyrirtæki frá endurnýjanlegum orkugjöfum vatnsafls og jarðhita.

Dan Jørgensen, framkvæmdastjóri orku- og húsnæðismála hjá framkvæmdastjórn ESB , og Jóhann Páll Jóhannsson, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnuðu ráðstefnuna með ræðum sínum. Dan Jørgensen lagði áherslu á nauðsyn þess að nýta þá miklu möguleika sem jarðvarmaorka býður upp á, til að geta tryggt orkuöryggi og stöðugt og hagkvæmt verð og kolefnislosun.

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri ON, Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, voru meðal þeirra sem tóku þátt í pallborðsumræðum, en þau ræddu ábyrga auðlindanýtingu jarðvarma og hvernig sú nýting skapar samkeppnishæfni. Þau sögðu frá því hvernig fyrirtækin hafa nýtt auðlindir Íslands á ábyrgan hátt, með það að fyrirrúmi að skapa verðmæti fyrir íslenskt samfélag og tryggja áframhaldandi lífskjör komandi kynslóða.

Ráðstefnur sem þessar eru mikilvægur vettvangur til að segja frá þeirri forystu sem Ísland er í á sviði jarðvarmanýtingar, og við segjum stolt frá þeirri reynslu og þekkingu í að nýta þennan orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu og hvernig hægt væri að gera enn betur á evrópska vísu.