22. okt 2025
Orkuveitan
Í tengslum við Arctic Circle þingið sem haldið var í Hörpu á dögunum bauð Orkuveitan gestum Business Forum þingsins í heimsókn í Jarðhitasýninguna í Hellisheiðarvirkjun.
Í Hellisheiðarvirkjun tóku Ingunn Gunnarsdóttir, Leiðtogi Nýsköpunar hjá ON og vísindamiðlarar Jarðhitasýningarinnar, á móti gestunum. Þau leiddu hópinn í gegnum Jarðhitasýningu virkjunarinnar áður en kynningar fóru fram á starfsemi Orku náttúrunnar og Carbfix. Þá fengu gestir enn frekari innsýn í starfsemi Carbfix þegar þau fóru í heimsókn í holutopphús þar sem CO2 er dælt niður í berg til varanlegrar geymslu.
Áhugi á starfsemi Orkuveitunnar og dótturfélaga í tengslum við sjálfbæra nýtingu Íslendinga á jarðhita er mikill og fer vaxandi á alþjóðavísu. Sífellt fleiri ríki, fyrirtæki og stofnanir horfa til Íslands þegar kemur að því að læra af reynslu og lausnum sem byggja á áratuga þekkingu og árangursríkum rekstri jarðvarmavirkjana. Þessi aukni áhugi skapar bæði tækifæri og nýjar víddir í alþjóðlegu samstarfi og þróun verkefna. Það var okkur heiður að taka á móti gestunum og kynna fyrir þeim hvernig jarðhiti og ábyrg nýting á jarðhita stuðlar að sjálfbærni, orkuöryggi og skapar verðmæti fyrir samfélagið og framtíðar kynslóðir.