Forstjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Hellisheiðarvirkjun

7. okt 2025

Orkuveitan

Nýverið tók Orkuveitan á móti góðum gestum þegar forstjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. Food and Agriculture Organization, FAO), ásamt sendinefnd, kom í heimsókn til Hellisheiðarvirkjunar. Dr. Qu Dongyu, sem hefur stýrt stofnuninni frá 2019, hefur í störfum sínum lagt áherslu á Grænuborgar-framtakið sem miðar að eflingu grænna hagkerfa borga og traustra tengsla þeirra við landsbyggð í fæðuöryggisskyni. Í heimsókn sinni til Íslands óskaði hann sérstaklega eftir að fá að kynnast orkuframleiðslu á Íslandi og heimsækja fyrirtæki sem nýta sjálfbæra orku.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, tók á móti gestunum, ásamt Eiríki Hjálmarssyni, sjálfbærnistjóra Orkuveitunnar. Lilja Björk Hauksdóttir, samskiptastýra ON, og Kristinn Hafliðason, framkvæmdastjóri VAXA Technologies, fluttu erindi um starfsemi fyrirtækjanna, og að lokum fór hópurinn út að niðurdælingarholu þar sem þau fengu kynningu á Carbfix starfseminni frá Bergi Sigfússyni, Chief of Systems, hjá Carbfix.

Það var okkur heiður að fá þetta tækifæri til að kynna fyrir Dr. Qu Dongyu hvernig auðlind eins og jarðhiti, og ábyrg nýting á honum, stuðla að sjálfbærni og orkuöryggi og skapa verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

UN heimsokn 2025-04.jpg