6. jún 2025
OrkuveitanMatstofa Orkuveitunnar hefur nú hlotið hina virtu Svansvottun og bætist þar með í hóp þeirra mötuneyta sem sýna áþreifanlega ábyrgð í umhverfismálum. Björn Bragi Bragason, yfirmatreiðslumeistari, og Kristrún Dröfn Jóhannsdóttir, forstöðukona innri þjónustu, tóku formlega við leyfinu frá Ester Öldu H. Bragadóttur, sérfræðingi hjá Svaninum.
Ferlið við að öðlast Svansvottun hefur verið krefjandi, ekki síst vegna þess að Orkuveitan þurfti að skipta um húsnæði í miðjum klíðum, sem þýddi að hluti vinnunnar þurfti að hefjast upp á nýtt. Þrátt fyrir það tókst starfsfólki matstofunnar að ljúka ferlinu með glæsibrag.
Svansvottun mötuneyta felur í sér víðtækar kröfur á öllum stigum þjónustunnar, allt frá innkaupum matvæla, sem skulu vera að stórum hluta lífræn og með lágt kolefnisspor, til sérstakra aðgerða gegn matarsóun með mælingum og miðlun til gesta. Þá skulu efnavörur til þrifa vera umhverfisvottaðar til að tryggja heilsu starfsfólks og gesta.
Orkuveitan leggur ríka áherslu á að samþætta umhverfisábyrgð og heilbrigði í rekstri sínum, og er Svansvottunin mikilvægur áfangi á þeirri vegferð. Við óskum starfsfólki matstofunnar innilega til hamingju með þennan árangur.