30. sep 2024
OrkuveitanEvrópski þróunarbankinn (CEB) hefur samþykkt að veita Orkuveitunni 75 milljóna evra lán til að byggja upp veitukerfi og efla viðnám þeirra gegn loftslagsvá og náttúruhamförum. Fjármagnið, sem svarar til meira en 11 milljarða íslenskra króna, nýtist til uppbyggingar rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna.
Mikil fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur kallað á uppbyggingu nýs húsnæðis sem tengist kerfum Veitna, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar. Samhliða stækkun veitukerfanna er unnið að öflun aukins forða fyrir hitaveituna og fjárfesta þarf í rafveitunni til að mæta orkuskiptum. Allar þurfa veiturnar einnig að eflast vegna afleiðinga loftslagsbreytinga á borð við hækkandi sjávarstöðu, aukna ákefð úrkomu og óvissar breytingar í veðurfari.
Í tilkynningu bankans um lánveitinguna er sérstaklega vikið að því að veituþjónustan sé á hagstæðu verði og hafi því jöfnunaráhrif í samfélaginu.
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar
„Orkuveitan er að vaxa og eflast. Veitur vinna eftir metnaðarfullum áætlunum um eflingu veitukerfanna, sem eru grunnstoð í sjálfbærni okkar samfélags. Það er gott að Orkuveitan nýtur trausts til fjölbreyttrar og hagstæðrar fjármögnunar á þessum nauðsynlegu verkefnum. Nýleg dæmi uppbyggingu og eflingu veitukerfanna er lagning og tenging nýrrar Suðuræðar fyrir hitaveituna á sunnanverðu höfuðborgarsvæðinu og bygging nýrrar aðveitustöðvar rafveitu Veitna til að hægt sé meðal annars að hlaða skemmtiferðaskip í Sundahöfn.“