Leiðrétting: Ársreikningur Orkuveitunnar | Öflug uppbygging og góð afkoma

10. mar 2025

Orkuveitan

Leiðrétting – Öll viðhengi uppfærð
Vegna síðuvíxla í ársreikningi samstæðu 2024 hafa öll viðhengi tilkynningarinnar verið uppfærð, í íslensku útgáfunni og þeirri ensku.

---------

Orkuveitan hefur birt samstæðuársreikning sinn fyrir árið 2024 sem sýnir afar jákvæða niðurstöðu. Hagnaður samstæðunnar jókst um 45% frá árinu 2023 og nam 9,3 milljörðum króna og er lagt til að arður til eigenda verði 6,5 milljarðar króna. Samstæðuna skipa, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. Eigendur Orkuveitunnar eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

„Góð rekstrarniðurstaða síðasta árs er traust undirstaða þeirrar sóknar sem Orkuveitan hefur blásið til,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar. „Við höfum mætt mikilli eftirspurn eftir þjónustu okkar og höldum áfram að fjárfesta með ábyrgum hætti í nýsköpun, sjálfbærni og öflugum innviðum.“

Stöðugur vöxtur og auknar fjárfestingar

Tekjur samstæðunnar jukust um 9,2% frá árinu 2023 til 2024, á sama tíma og rekstrargjöld hækkuðu um 8,8%. Veltufé frá rekstrinum nam 29,1 milljarði króna og jókst um 6,0% milli ára. Fjárfestingar námu 30,9 milljörðum króna og jukust um 5,8%.

Í ársreikningnum er lögð rík áhersla á sjálfbærni og í annað sinn birtir Orkuveitan upplýsingar í samræmi við Flokkunarreglugerð, sem sýnir hve stór hluti starfseminnar stenst strangar alþjóðlegar kröfur um umhverfislega sjálfbærni. Á árinu 2024 gaf Orkuveitan út endurnýjaðan ramma fyrir græna fjármögnun fyrirtækisins. Hann fékk dökk-græna einkunn alþjóðlegs matsfyrirtækis. Traustur fjárhagur og þetta afgerandi mat á starfseminni hefur tryggt Orkuveitunni greiðan aðgang að fjármagni til fjárfestinga á hagstæðari kjörum en ella. Starfsemi Ljósleiðarinn er utan gildissviðs flokkunarreglugerðarinnar.

Blásið til sóknar í orkuöflun

Styrking orkuvinnslu er forgangsmál hjá Orkuveitunni líkt og fram kom í nýrri heildarstefnu sem við settum okkur í upphafi árs, meðal annars með aukinni raforkuvinnslu úr jarðhita á Hengilssvæðinu og vindorku á nærliggjandi svæðum. Nokkrir vatnsaflskostir eru einnig til skoðunar. Á árinu 2024 samdi Orka náttúrunnar, ásamt Veitum og Orkuveitunni, um umfangsmiklar boranir vegna gufu og heits vatns.

„Það var sérstakt fagnaðarefni í orkuöflun okkar hversu góður árangur náðist í að staðsetja ný lághitasvæði á suðvesturhorninu,“ segir Sævar Freyr. „Eftirspurnin eftir þjónustu hitaveitunnar hefur stóraukist og jafnast á við tvöfalda notkun hitaveitnanna við Eyjafjörð sem dæmi. Það er afrek að halda í við slíkan vöxt.“

Vaxandi kolefnisbinding með aðferðum Carbfix

Bindingargeta á kolefni mun nærri þrefaldast síðar á þessu ári með tilkomu nýrrar hreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar í Ölfusi. Kolefnisspor Orkuveitunnar jókst örlítið árið 2024 vegna tengingar nýju stöðvarinnar, en stefnan er að ná nettó-núlli kolefnisspori vegna eigin starfsemi fyrir árið 2030.

„Carbfix-aðferðin er lykillinn að því að ná loftslagsmarkmiðum Orkuveitunnar og stuðla að raunverulegum og varanlegum lausnum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ segir Sævar Freyr. „Þessi aðferð hefur þegar skilað Orkuveitunni miklum ávinningi, bæði í umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti. Við erum stolt af því að sveitarfélög sýni framsýni og ábyrgð með því að lýsa vilja að skipuleggja bindingarstöðvar í sinni lögsögu. Við höfum þegar undirritað viljayfirlýsingar við Ölfus og Norðurþing og eigum áfram í samtali við Hafnarfjörð. Jákvæð umsögn stjórnvalda um verkefnið þar er mikil viðurkenning á þeim vandaða undirbúningi sem að baki liggur.“

Sævar Freyr segir loftslagsvána krefjast tafarlausra aðgerða. „Við hjá Orkuveitunni erum staðráðin í að vera leiðandi afl, sérstaklega þegar að því kemur að gera iðnaði sem á erfitt með að draga úr losun kleift að skila árangri í loftslagsmálum. Þar eru mikil viðskiptatækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf, tækifæri til erlendrar fjárfestingar hér á landi og það styrkir samkeppnisstöðu landsins í heild.“

Efling fjarskiptainnviða og aukið öryggi

Ljósleiðarinn hefur styrkt stöðu sína með samruna fjarskiptakerfa sem keypt voru af Sýn við eigin kerfi. Markmið næstu missera er að bæta afkomu fyrirtækisins enn frekar og tryggja um leið öflugri fjarskiptainnviði. Með breyttum aðstæðum á alþjóðavettvangi er mikilvægt að standa vörð um innviði landsins, og Ljósleiðarinn gegnir þar lykilhlutverki. Jákvæðar fréttir af hagstæðari lánakjörum í upphafi árs gefur góð fyrirheit um að við getum náð enn betri árangri í rekstri fyrirtækisins.

Jákvæð þróun í jafnréttismálum og áhersla á líffræðilega fjölbreytni

Í  fyrsta sinn um árabil er hlutfall kvenna í hópi starfsfólks Orkuveitunnar yfir þriðjungi, ekki síst vegna aukins jafnvægis í stjórnendahópum og hjá sérfræðingum. Óútskýrður launamunur kynja hefur verið innan skekkjumarka samfellt frá 2017.

Auk þess er í ársreikningnum nú sérstakur kafli um líffræðilega fjölbreytni og hringrásarhagkerfi. Þar kemur meðal annars fram að unnið sé að endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal eftir að raforkuvinnslu lauk í dalnum, sem og þróun Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun þar sem nýsköpunarfyrirtæki geta byggt á hreinni orku.

Björt framtíðarsýn

Sævar Freyr segir að sterk rekstrarniðurstaða, vaxandi sjálfbær umsvif og metnaðarfullar framtíðaráætlanir gefi góða von um áframhaldandi sókn Orkuveitunnar. „Samstæðan mun halda áfram að efla innviði, styðja við nýsköpun og stuðla að sjálfbærum orkuskiptum – með hagsmuni samfélagsins, umhverfis og komandi kynslóða að leiðarljósi.“

Á meðal nýsköpunarverkefna í orku- og veitumálum sem unnið er að innan Orkuveitunnar og gerð er grein fyrir í skýrslu stjórnar í ársreikningi samstæðunnar er djúpborun eftir ofurheitri jarðgufu, blöndun háhita- og lághitavatns sem gerir rekstur hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu hagkvæmari og umhverfisvænni og þjónustuverkefni sem byggja á aukinni notkun gagna og gervigreindar.

„Við erum sannfærð um að við séum á réttri leið. Góð rekstrarniðurstaða og öflug uppbygging opna fyrir fleiri tækifæri, bæði í orkuöflun, fjarskiptum og öðrum nýsköpunarverkefnum,“ segir Sævar Freyr að lokum.

Tengiliður:
Snorri Hafsteinn Þorkelsson
framkvæmdastjóri fjármála
snorri.hafsteinn.thorkelsson@orkuveitan.is

Viðhengi