2. janúar 2025

Advania leiðir innleiðingu á nýju upplýsingakerfi fyrir Orkuveituna

Loading...

Advania hefur verið valið sem samstarfsaðili Orkuveitunnar til að stýra greiningu og innleiðingu Microsoft Dynamics 365 Finance & Operations (F&O) upplýsingakerfisins, í kjölfar vel heppnaðs útboðs. Þetta er stórt skref í stafrænu umbreytingarferli fyrirtækisins, sem miðar að því að bæta rekstrarferla og auka skilvirkni í starfsemi þess.

Snorri Þorkelsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitunni, segir verkefnið mikilvæga fjárfestingu:

„Innleiðing F&O kerfisins mun einfalda og straumlínulaga rekstrarferla okkar. Við hlökkum til samstarfsins við Advania, sem hefur sýnt mikla fagmennsku og reynslu á þessu sviði. Þetta verkefni mun styrkja innviði okkar og undirbúa okkur betur til að takast á við framtíðaráskoranir.“

Advania, sem hefur lengi verið leiðandi á sviði upplýsingatækni á Íslandi, mun sjá um alla þætti verkefnisins, frá greiningu og skipulagi til tæknilegrar innleiðingar.

Innleiðingin fer fljótlega af stað og mun stuðla að aukinni hagkvæmni og styrkja rekstur Orkuveitunnar til framtíðar.