Frábær stemning á Orku- og vísindadegi Orkuveitunnar
Orkuveitan bauð yfir 700 háskólanemum á Orku- og vísindadaginn, sem haldinn var í fimmta sinn, í Elliðaárstöð. Carbfix, Orka náttúrunnar, Veitur og Ljósleiðarinn ásamt Hugvit og tækni, Rannsóknum og nýsköpun og Fjármálum hjá Orkuveitunni, tóku á móti áhugasömum nemendum sem fengu að kynnast fjölbreyttum störfum og starfsemi Orkuveitunnar og dótturfélaga.
Það var mögnuð stemning í dalnum og fyrirtækin buðu upp á ýmislegt skemmtilegt fyrir nemendurna. Ljósleiðarinn var með varatengistöð á staðnum sem vakti mikla athygli og margir nemendur voru forvitnir um hvernig þetta allt virkar bak við tjöldin. Ljósleiðara-lukkuhjólið sló í gegn og það var löng röð í CS2-áskorunina þar sem nemendur skoruðu á starfsfólk okkar í tölvuleiknum. Carbfix sýndi nemendunum hvernig Carbfix aðferðinni er beitt til að breyta CO2 í stein og bindur þannig koldíoxíð varanlega í bergi á innan við tveimur árum. Veitur buðu nemendum að keppa í blindandi mælaskiptum.
Sérfræðingar ON miðluðu fræðslu til gesta og kynntu störf sín sem eru afar fjölbreytt en hjá fyrirtækinu starfa meðal annars, rafmagnsverkfræðingar, líffræðingar, stærðfræðingar, sálfræðingar, efnaverkfræðingar, viðskiptafræðingar, tölvunarfræðingur, verkefnastjórar, félagsfræðingar. Hjá Orkuveitunni var hægt að keppa um toppsæti í armbeygjukeppni þar sem gervigreind hélt utan um talningu og skoða sýni í smásjá. Orkubingó sló í gegn en í boði var veglegur vinningur frá 66°Norður.
Elliðaárstöð var sannarlega vel nýtt þennan dag, starfsfólk okkar átti mörg góð samtöl við nemendurna, sem voru virkilega áhugasöm um starfsemina, og enn eitt árið lék veðrið veið gestina.
Það er alltaf gaman að fá háskólanemendur í heimsókn til okkar og við þökkum þeim kærlega fyrir virkilega vel heppnaðan dag. Við vonumst til að sjá þau aftur í framtíðinni, í starfsviðtölum eða á göngum fyrirtækisins.