4. apr 2025
OrkuveitanÍ gær hélt Carbfix opinn íbúafund á Fosshótel Húsavík, þar sem fyrirtækið kynnti fyrirhugaða starfsemi sína og möguleika til kolefnisbindingar í Norðurþingi. Mjög vel var mætt á fundinn og sýndu íbúar verkefninu mikinn áhuga og sköpuðust áhugaverðar og skemmtilegur umræður.
Líkt og fram hefur komið samþykkti Sveitastjórn Norðurþings samhljóða viljayfirlýsingu um samstarf við Carbfix, dótturfélag Orkuveitunnar, um að koma á fót stöð til móttöku-, niðurdælingar og bindingar CO2 á Bakka við Húsvík. Eitt af því sem lagt er áherslu á í viljayfirlýsingunni er að efna til öflugra samskipta við íbúa og hagaðila á svæðinu. Var þessi fundur sá fyrsti í þeirri vegferð.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, lýsti ánægju sinni með fundinn:
„Við erum mjög þakklát fyrir hlýjar móttökur og áhuga íbúa í Norðurþingi. Samstarf við samfélög eins og Húsavík og nágrenni er grundvöllur þess að við getum haldið áfram að þróa leiðandi loftslagslausnir, og við hlökkum til að vinna að spennandi verkefnum á svæðinu.“
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, tók þátt í fundinum þar sem hann lagði áherslu á góð samskipti við heimafólk:
„Það var einstaklega ánægjulegt að efna til samtals við íbúa Húsavíkur og finna hvað hugmyndirnar fengu góðar viðtökur. Það skiptir miklu máli að fá sjónarmið þeirra sem hér búa og vinna að sameiginlegri framtíðarsýn í loftslagsmálum.“
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, sagði tækifærin fjölmörg:
„Við fögnum frumkvæði Carbfix og þeirri jákvæðu orku sem fylgir slíkum framtaksverkefnum. Það er spennandi að sjá hvernig starfsemi þeirra gæti styrkt umhverfis- og loftslagsmarkmið okkar og jafnframt skapað fjölbreyttari atvinnumöguleika fyrir íbúa Norðurþings.“
Starfsfólk Carbfix stóð fyrir yfirgripsmikilli kynningu á fundinum ásamt samtali við íbúa, sveitarfélagið og önnur lykilfyrirtæki á svæðinu. Fundurinn gaf góða innsýn í framtíðaráform Carbfix, sem snúa að því að bindast sterkum böndum við svæðið, stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og efla loftslagsaðgerðir í Norðurþingi. Mikill áhugi fundargesta undirstrikaði vonir um árangursríkt samstarf á næstu misserum.