Harpa stýrir Nýjum orkukostum Orkuveitunnar

13. maí 2024

Orkuveitan
Harpa Pétursdóttir forstöðukona Nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni.
© Jóhanna Rakel

Harpa Pétursdóttir hefur verið ráðin forstöðukona Nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni og hefur hún þegar hafið störf. Um er að ræða nýja einingu hjá Orkuveitunni sem er hluti af sviði Rannsókna og nýsköpunar.

Rannsóknir og nýsköpun sinnir því mikilvæga hlutverki að gæta auðlinda og framtíðar auðlindaöflun til að komandi kynslóðir geti búið við sömu lífsgæði og við gerum í dag. Nýir Orkukostir vinna markvisst að stefnuáherslunni Aukið framboð og sjálfbærar lausnir. Einingin er því forystuafl í orkuskiptum og þróun í átt að kolefnishlutlausri framtíð.

Reynsla úr orkugeiranum

Harpa Pétursdóttir er lögfræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað í orkugeiranum frá árinu 2010 þegar hún hóf störf hjá Orkustofnun. Þar starfaði hún sem lögfræðingur um níu ára bil, annars vegar sem verkefnisstjóri og lögfræðingur raforkueftirlits og hins vegar sem lögfræðingur auðlindanýtingar stofnunarinnar.

Frá árinu 2022 hefur Harpa starfað hjá Orku náttúrunnar, einu af dótturfélögum Orkuveitunnar, sem stjórnandi haghafa og stjórnsýslu og setið í framkvæmdastjórn félagsins.

Harpa hefur einnig reynslu af orkumálum frá störfum sínum hjá lögmannsstofunni BBA Legal þar sem hún sinnti orkumálum fyrir hönd stofunnar. Harpa hefur jafnframt sinnt stundakennslu við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst auk þess sem hún hefur setið í ýmsum nefndum og stjórnum. Harpa stofnaði árið 2016 félagið Konur í orkumálum og var stjórnarformaður þess í 6 ár. Hún er jafnframt varaformaður Nordic Energy Equality Network. Þá er Harpa Viðurkenndur stjórnarmaður og hefur öðlast verðbréfaréttindi.

Krefjandi verkefni fram undan

„Nýir orkukostir munu skipta höfuðmáli þegar kemur að aukinni orkuöflun hér á landi og þar er mikilvægt að vanda vel til verka. Hjá Rannsóknum og nýsköpun starfar margt af fremsta vísindafólki þjóðarinnar sem er alla daga að finna lausnir á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við erum því afar glöð með að fá Hörpu til liðs við okkur enda býr hún yfir mikilli reynslu úr orkugeiranum sem mun nýtast okkur vel,“ segir Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni.

„Orkuveitan ber samfélagslega ábyrgð þegar kemur að orkuöflun á Íslandi og hefur sett sér háleit markmið í þeim efnum á næstu árum. Í ljósi stöðu orkumála hér á landi er verkefnið afar krefjandi og því lykilatriði að vandað sé til verka og metnaður sé lagður í að ná þeim markmiðum. Ég er afar spennt að takast á við þessi verkefni með öflugum hópi fólks hér í Orkuveitunni,“ segir Harpa Pétursdóttir forstöðukona Nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni.