Hjartastrengir og vatnsæðar
Í gær opnaði sýningin Hjartastrengir og vatnsæðar í Gestastofu Elliðaárstöðvar.
Orka streymir um ósýnilegar æðar borgarinnar. Vatn, rafmagn og skólp rennur til okkar og frá og nærir okkur, hlýjar okkur og tengir okkur. Á sýningunni Hjartastrengir og vatnsæðar fá gestir að upplifa innviði á nýjan hátt, þar sem hjarta borgarinnar slær í takt við hjarta mannsins.
Gestir fá að upplifa innviði borgarinnar, orku- og veitukerfin á skapandi og skemmtilegan hátt.
Sýningin er unnin af Margréti Hugadóttur, leiðtoga vísindamiðlunar í Elliðaárstöð, og Elísabetu Jónsdóttur, sýningarstjóra Elliðaárstöðvar.
Sýningin stendur til 31. janúar 2026 og er opin alla virka daga frá kl. 9-16:30.
Samhliða sýningunni gefur Elliðaárstöð út nýtt fræðsluefni sem nefnist Ósýnilegt verður sýnilegt sem fjallar um orku og veitukerfin.
Hefur þú velt því fyrir þér hvaðan vatnið kemur sem rennur úr krananum á baðherberginu? Eða hvaðan raforkan kemur sem knýr áfram tækin og ljósin á heimilinu?
Á sama hátt og líkami okkar er byggður upp af mismunandi kerfum, líkt og blóðrásarkerfi, taugakerfi og stoðkerfi, þá eru nokkur kerfi nauðsynleg til að láta borgina okkar virka og halda henni hreinni og heilsusamlegri.
Ósýnilegt verður sýnilegt er fræðsluefni fyrir grunnskólanemendur um veitukerfin í borginni.
Hér má lesa meira um sýninguna og fræðsluefnið.