2. apr 2025
OrkuveitanDagana 24.–25. mars hófst formlega ICEWATER verkefnið með öflugum upphafsfundi sem haldinn var í húsnæði Orkuveitunnar í Elliðaárdal. Um 80 manns tóku þátt í fundinum, þar sem farið var yfir verkefnisskipulag, væntingar og samstarf þátttakenda. Fundurinn markaði upphafið að einu stærsta styrkverkefni sem Ísland hefur fengið úthlutað - með rúmlega 3,5 milljarða styrk frá LIFE-áætlun Evrópusambandsins.
Markmið ICEWATER
Verkefnið hefur það að markmiði að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunnar á Íslandi og byggir á nánu samstarfi fjölmargra opinberra stofnana, sveitarfélaga, nýsköpunarfyrirtækja og þjónustuaðila.
Orkuveitan í lykilhlutverki
Orkuveitan ásamt Orku náttúrunnar og Veitum, eru meðal þátttakenda í verkefninu og leggja sitt af mörkum til að þróa lausnir og stuðla að samvinnu við sjálfbæra nýtingu og vernd vatna hér á landi. Þátttakan samræmist stefnu samstæðunnar um ábyrga auðlindanýtingu og skýran stuðning við orkuskipti, nýsköpun og umhverfisvernd.
Fjölbreyttur hópur samstarfsaðila
Verkefnið er leitt af Umhverfis- og Orkustofnun og þátttakendur eru meðal annars Reykjavíkurborg, Hafrannsóknastofnun, Veðurstofa Íslands, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Kópavogsbær, Hveragerðisbær og Samband íslenskra sveitarfélaga – auk fyrirtækja á sviði nýsköpunar og orkumála.
Stolt af því að vera hluti af verkefninu
„Það er okkur mikilvægt að taka þátt í verkefnum sem tengja saman vísindi, stefnumótun og starfsemi á þessum vettvangi. Þátttaka okkar í ICEWATER er dæmi um slíka nálgun og endurspeglar vilja Orkuveitunnar til að leiða með ábyrgð,“ segir Dagrún Árnadóttir verkefnisstjóri Orkuveitunnar í ICEWATER.