Nettó-núll markmið Orkuveitunnar í loftslagsmálum staðfest

21. nóv 2024

Orkuveitan

Alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn Science Based Targets initiative (SBTi) hefur staðfest að loftslagsmarkmið Orkuveitunnar séu í samræmi við hinar ströngu kröfur samtakanna um nettó-núll losun gróðurhúsalofttegunda. Útlit er fyrir að orkuvinnsla í stærstu jarðgufuvirkjun landsins – Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar í Ölfusi – verði nánast sporlaus á næsta ári.

Áður hafði SBTi, sem er samstarfsvettvangur til að ýta undir metnaðarfullar loftslagsaðgerðir fyrirtækja, staðfest að loftslagsmarkmið Orkuveitunnar til skemmri tíma uppfylltu markmið Parísarsáttmálans um að hitastig á Jörðinni hækki ekki um meira en 1,5 gráðu. Orkuveitan er annað fyrirtækið hér á landi með markmið sem staðfest er að miði að nettó-núll losun. Hitt er Embla Medical, áður Össur.

Emma Soffía Elkjær Emilsdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum og sjálfbærni hjá Orkuveitunni, segir mikilvægt að fyrirtæki undirgangist strangar kröfur í loftslagsmálum svo árangur náist. „Nettó-núll er markmiðið sem við hjá Orkuveitunni höfum sett okkur. Með þessari viðurkenningu er staðfest að skilningur okkar á markmiðinu er réttur og að þær aðgerðir sem við ætlum að ráðast í miði að þessu skýra markmiði. Það er mjög mikilvægt,“ segir Emma.

Emma Soffía Elkjær Emilsdóttir Photo.jpg
Emma Soffía Elkjær Emilsdóttir

Tilbúin að borga meira fyrir betri lausnir

„Við hjá Orkuveitunni erum nú að undirbúa aukna orkuframleiðslu – hvorttveggja varma og rafmagn – til að auðvelda öðrum að ná sínum loftslagsmarkmiðum. Það er mikilvægt að þær framkvæmdir sem við þurfum að ráðast í verði með smærra kolefnisspor en virkjanaframkvæmdir fyrri ára. Þannig eigum við í samtali við okkar birgja – verktaka og vörubirgja – um betri vörur og betri tæki. Við hjá Orkuveitunni höfum skilgreint innra kolefnisverð þar sem við segjumst tilbúin í okkar útboðum til að borga meira fyrir betri lausnir. Framtíðin er jú í húfi og með þessu leggjum við okkar af mörkum til að draga úr samfélagslosun Íslands,“ segir Emma Soffía.

Nettó-núll, nýtt hugtak

Nettó-núll er hugtak sem er að taka við af „kolefnishlutleysi“ en það síðarnefnda þykir í senn taka um of athygli frá skaðsemi annarra gróðurhúsalofttegunda en kolefnis og gera kolefnisjöfnun í stað samdráttar losunar of hátt undir höfði. Nettó-núll táknar jafnvægi milli þess sem losað er af gróðurhúsalofttegundum og þess sem fangað er af þeim úr andrúmslofti. Innan samstæðu Orkuveitunnar er samhliða unnið markvisst að samdrætti losunar frá starfseminni og föngun kolefnis úr andrúmslofti. Auk þess býður Carbfix, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, öðrum fyrirtækjum að binda kolefni frá þeirra starfsemi með varanlegum og öruggum hætti.