25. okt 2024
OrkuveitanOrkuveitan, Transition Labs og breska hátæknifyrirtækið Space Solar hafa skrifað undir þríhliða viljayfirlýsingu um samstarf.
Space Solar hefur þróað sólarorkuver sem áætlað er að verði á sporbaug um jörðu. Tæknin gengur út á það að orkuverin muni virkja geisla sólarinnar og miðla orkunni til jarðar með stuttum útvarpsbylgjum. Fyrirhugað er að svokallaðar jarðstöðvar taki síðan við bylgjunum, umbreyti þeim í rafmagn og skili grænni endurnýjanlegri orku inn í orkukerfi heimsins.
Aukin græn raforkuframleiðsla leikur lykilhlutverk í baráttunni við loftslagsbreytingar og er raunvísindafólk víða um heim að vinna að þróun nýrra orkukosta sem eru grænir, áreiðanlegir og hagkvæmir í uppbyggingu og rekstri. Sú tækni sem vísindafólk Space Solar hefur þróað getur valdið straumhvörfum á þeirri vegferð.
Gætu framleitt rafmagn allan sólarhringinn
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að aðilar muni vinna saman að ýmsum þáttum sem tengjast fyrsta fasa uppbyggingar Space Solar. Ólíkt sólarorkuverum á jörðu niðri munu sólarorkuver Space Solar geta framleitt rafmagn dag og nótt, óháð veðurfari eða skýjahulu.
Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs hefur átt í samstarfi við Space Solar um nokkurt skeið, eins og skýrt var frá í fjölmiðlum síðastliðið vor. Verkefnið var einnig kynnt á ársfundi Orkuveitunnar í apríl síðastliðnum. Transition Labs vinnur að undirbúningi þróunarstarfsins auk þess að styðja Space Solar í viðskiptaþróun, stefnumótun og fjármögnun. Tæknin og vísindin að baki starfsemi Space Solar eru vel þekkt en enn á eftir að leysa ýmsar verkfræðilegar áskoranir varðandi virkjun sólarorku úr geimnum.
Eitt af því sem stendur fyrir dyrum er að velja staðsetningar fyrir fyrstu móttökustöðvar orkunnar á jörðu niðri.
Mikilvægt að styðja við framsækin fyrirtæki
„Við í Orkuveitunni erum stolt af því að aðilar eins og Space Solar skuli leita til okkar. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni þar sem enn á eftir að leysa ýmsar flóknar verkfræðilegar áskoranir. Það er mikilvægt að hugsa stórt og styðja við framsækin verkefni. Viljayfirlýsingin felur m.a. í sér kaup á mögulegri orku sem verður til á rannsóknarstigi. Við höfum einnig rætt það að aðstoða fyrirtækið við að tengjast neti Landsnets. Takist þessum aðilum að leysa áskoranirnar gæti það skipt sköpum í orkuöflun framtíðar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunni.
„Við horfum til þess að staðsetja móttökustöðvar á norðurhveli jarðar og er í því sambandi meðal annars litið til Íslands, Kanada og norðurhluta Japan. Komi til uppbyggingar á Íslandi er okkur mikilvægt að eiga í samstarfi við leiðandi íslenskt orkufyrirtæki um áframsölu orkunnar, auk annarra úrlausnarefna sem tengjast uppbyggingunni. Orkuveitan er draumasamstarfsaðili fyrir verkefni af þessu tagi enda hefur fyrirtækið sýnt að það er framsýnt og skorast ekki undan leiðandi hlutverki þegar kemur að loftslagsaðgerðum”, segir Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Transition Labs.
„Það er einstakt að vinna með svona framsýnu fyrirtæki eins og Orkuveitunni. Sólarorka úr geimnum hefur fjölda einstakra kosta s.s. að geta framleitt orku allan sólarhringinn á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Orkuveitan hefur skilning á því að þróa þarf nýja endurnýjanlega orkukosti til þess að eiga möguleika á að ná alþjóðlegum markmiðum líkt og kolefnishlutleysi fyrir 2050 og við erum hæstánægð að þau hafa ákveðið að vinna með okkur að sjálfbærari framtíð í orkumálum,” segir Martin Soltau, annar framkvæmdastjóra Space Solar.