Stórt skref í loftslagsmálum

4. nóv 2024

Orkuveitan

Carbfix hefur nú undirritað samning við Elkem á Íslandi og Þróunarfélag Grundartanga um að binda koldíoxíð frá verksmiðju Elkem á Grundartanga. Samningurinn var undirritaður í gær að viðstöddum m.a. fulltrúum Orkuveitunnar og Carbfix, sveitarfélaga á svæðinu og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar segir um samstarfið: „Þetta samstarf er mikilvægt skref í átt að sjálfbærari framtíð og sýnir enn á ný að við getum nýtt íslenskar lausnir til að takast á við loftslagsvandann. Þetta er jafnframt stórt skref í átt að kolefnishlutlausri starfsemi, en meginmarkmið samstarfsins er að fanga koldíoxíð úr útblæstri Elkem og binda til frambúðar með því að nýta aðferð Carbfix til að umbreyta gasinu í stein djúpt neðanjarðar."
Fyrsti áfangi samstarfsins felur í sér að bora rannsóknarholu en verkefnið miðar að því að þróast frá rannsóknarstigi yfir í fulla föngun og bindingu á allt að 450.000 tonnum árlega af koldíoxíði frá Elkem á Íslandi.

„Við gerum ráð fyrir að fleiri fyrirtæki og geirar fylgi í kjölfarið svo við getum spornað við þeim alvarlegu breytingum sem þegar eru hafnar á loftslaginu,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. Hún segir að nú byrji nýr kafli í sögu stóriðju á Íslandi og kísilmálmframleiðslu í heiminum þegar horft er til gróðurhúsalofttegunda.

carbfix orkuveitan elklem.webp

Við undirritun samningsins.