Útboð á uppsetningu mælimastra

30. maí 2024

Orkuveitan

Orkuveitan hefur auglýst útboð á uppsetningu mælimastra svo hægt sé að hefja rannsóknir á þremur vindorkukostum í nágrenni Hellisheiðar (https://utbodsvefur.is/orik-2024-01-wind-measurement-systems/).

Orkuveitan lagði fram beiðni í júní 2023 til Orkustofnunar um að verkefnisstjórn rammaáætlunar fjallaði um þrjá vindorkukosti sem kenndir eru við Lambafell og Dyraveg í Ölfusi og Lyklafell í Mosfellsbæ (https://orkuveitan.is/um-or/fyrir-fjolmidla/frettir/orkuveitan-skodar-ad-reisa-vindorkugarda-i-nagrenni-hellisheidar/).

Útboðið felur í sér kaup á búnaði og uppsetningu tveggja mælimastra og einum gámi með LiDAR mæli. Annað mælimastrið verður við Dyraveg og hitt við Lambafell. LiDAR mælirinn verður staðsettur við Lyklafell.

Mælimöstrin verða allt að 125 metrar á hæð en áætlað er að uppsetning mælimastranna og LiDARsins taki tvær til fjórar vikur. Mælingar með möstrum og LiDAR munu standa yfir í að hámarki tvö ár en að þeim tíma liðnum verða mælitækin fjarlægð. Stuðst verður við fyrirliggjandi innviði þar sem það er mögulegt en samhliða uppsetningu mælibúnaðar verður vegslóði lagður að mastrinu við Dyraveg.

Tilgangur mælinganna er að rannsaka og afla nákvæmra mæligagna um vindafar sem nýtt verða t.d. við hönnun vindorkugarðanna og greiningu á hagkvæmni þeirra. Samhliða mælingum verður farið í undirbúning mats á umhverfisáhrifum fyrir vindorkukostina.

Það skal tekið fram að þessar mælingar eru einungis til rannsókna. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um staðsetningu vindorkugarða eða hvort af þeim verði. Við staðarval á tillögunum var horft til þess að áhrif á umhverfi, náttúru og samfélag yrðu sem minnst. Horft var til fyrirliggjandi gagna um vindgæði og nálægðar við röskuð svæði, flutningsvirki, starfssvæði Orkuveitunnar og svæða þar sem sjáanleg mannvirki eru fyrir.

Útboðið er auglýst með fyrirvara um samning við landeigendur og um leyfismál.