Carbfix

Kolefnisförgun er nauðsynleg til að ná loftslagsmarkmiðum. Carbfix er tæknilausn sem bindur koldíoxíð varanlega í bergi á innan við tveimur árum. Carbfix hefur verið rekið sem sjálfstætt fyrirtæki frá árinu 2020. Sjá heimasíðu Carbfix.

Mikilvægasta verkefni aldarinnar

Mikilvægasta verkefni þessarar aldar er að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) og farga því sem er nú þegar komið út í andrúmsloftið til að hægja á loftslagsbreytingum. CO2 og aðrar gróðurhúslofttegundir auka hættu á gróðureldum, hraða bráðnun jökla og leiða til meiri öfga í veðurfari. Aðferðir náttúrunnar til að binda CO2 eru margvíslegar. Tré og gróður binda CO2 með ljóstillífun en einnig er gríðarlegt magn af CO2 náttúrulega bundið í steindum í bergi. Vísindafólk Carbfix hefur tekist að hraða þessu náttúrulega ferli kolefnisbindingar.

Holutoppar

Uppruni Carbfix

Carbfix varð til sem samstarfsverkefni milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, CNRS í Touluse og Earth Institute við Columbia háskóla árið 2006. Síðan þá hafa fjölmargir háskólar og rannsóknastofnanir tekið þátt í verkefninu undir hatti ýmissa Evrópuverkefna, þar á meðal Amphos 21, Climeworks og Kaupmannahafnarháskóli.

Á einungis sjö árum fór Carbfix úr því að vera hugmynd á blaði yfir í að vera starfhæft, hagkvæmt og umhverfisvænt fyrirtæki sem fangar CO2 og brennisteinsvetni (H2S) úr útblæstri í jarðgufunni og fargar varanlega með steinrenningu í berglögunum. Þessi skilvirka nýsköpun er byggð á samstarfi iðnaðar og fræðaheims, með virkri þátttöku vísindafólks í fjölda greina, verkfræðinga og iðnaðarfólks. Samtímis fékk næsta kynslóð sérfræðinga í loftslagslausnum þjálfun í gegnum rannsóknaverkefni tengd Carbfix á bæði grunn- og framhaldsstigum.

Undirbúningurinn

Á fyrstu árum verkefnisins var einblínt að því að þróa aðferðina með tilraunum á rannsóknarstofu, náttúrulegar hliðstæður rannsakaðar, líkön af forðanum gerð og Carbfix tilraunaniðurdælingar svæðið, oftast þekkt sem Carbfix1 svæðið, kannað. Samhliða flóknu leyfisveitingaferli var búnaður fyrir gasföngun, niðurdælingu og eftirlit fenginn.

Tilraunastig

Tilraunir Carbfix með niðurdælingu fóru fram árið 2012 í samstarfi við Orku náttúrunnar, 3 km suðvestur af Hellisheiðarvirkjun. Frá janúar til mars voru 175 tonn af hreinu koldíoxíði leyst upp í vatni og dælt niður í 500 m dýpi, við um 35°C hita, og frá júní til ágúst voru 73 tonn af gasblöndu sem innihélt 75% af CO2 og 25% H2S úr Hellisheiðarvirkjun dælt niður á sama hátt. Niðurstöður tilraunanna voru birtar í vísindatímaritinu Science árið 2016 sem staðfestu hraða steinrenningu CO2.