Loftslagsmál

Loading...

Orkuveitan hefur sett loftslagsmál á oddinn til margra ára með því að þróa og beita Carbfix-aðferðinni við að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) frá Hellisheiðarvirkjun ásamt því að draga úr losun frá bílaflota sínum, hvetja til sjálfbærra innkaupa hjá birgjum fyrirtækisins, stuðla að orkuskiptum í framkvæmdum og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Þetta hefur verið gert þrátt fyrir að starfsemi félagsins byggist á vinnslu og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Í sjálfbærnistefnu Orkuveitunnar kemur fram að fyrirtækið stefnir að kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 og í gegnum alla aðfanga keðjuna árið 2040. Þetta þýðir að fyrirtækið ætlar að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 90% í umfangi 1 og 2 og um 40% í umfangi 3 árið 2030, miðað við losun viðmiðunarársins 2016. Til ársins 2040 er stefnt að enn frekari samdrætti á losun í aðfangakeðju, eða 90%.

Til að tryggja að Orkuveitan starfi samkvæmt bestu mögulegu stöðlum og starfsvenjum hefur fyrirtækið fengið staðfestingu frá óháðum aðilum á bæði markmiðum og birtum losunartölum. Árið 2024 voru loftslagsmarkmið Orkuveitunnar endurskoðuð og uppfylla þau kröfur Science Based Targets initiative (SBTi). Markmiðin eru miðuð við þátttöku í nettó-núll leiðangri (Race to Zero) Sameinuðu þjóðanna sem styður við 1,5°C markmið Parísarsamkomulagsins. Loftslagsbókhald Orkuveitunnar er unnið samkvæmt leiðbeiningum Greenhouse Gas Protocol (GHGP) og hefur síðustu tvö ár verið endurskoðað samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 14064-1.

Loftslagsbókhald

Orkuveitan birtir loftslagsbókhald sem tekur tillit til um 95% beinnar og óbeinnar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins. Þar á meðal er bein losun frá jarðvarmavirkjunum, vegna fráveituúrgangs og bílaflota en líka óbein losun í aðfangakeðjunni þar sem kolefnisspor keyptrar vöru og þjónustu vegur þungt.

Loftslagsbókhald Orkuveitunnar er unnið samkvæmt aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol og nýtur óháðrar vottunar á að það uppfylli kröfur alþjóðlega staðalsins ISO 14064-1. Í loftslagsbókhaldinu sést losun einstakra þátta rekstursins, markmið okkar og mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum.

Loftslagsvegvísir

Vorið 2025 gaf Orkuveitan út Loftslagsvegvísi þar sem lýst er lykilaðgerðum til að ná loftslagsmarkmiðunum, helstu verkfærum fyrirtækisins í baráttunni gegn loftslagsvánni og tækifærum og áskorunum á þeirri vegferð. Þar eru einnig settir fram þeir mælikvarðar sem segja til um hvort Orkuveitunni miði í rétta átt.

Carbfix

Carbfix er sprotafyrirtæki í eigu Orkuveitunnar byggt á samnefndri aðferð til kolefnisbindingar í bergi. Markmið Carbfix er að vinna gegn loftslagsvánni með því að þróa og auka enn frekar steinrenningu CO₂ neðanjarðar um allan heim. Aðferðin var þróuð og prófuð við Hellisheiðarvirkjun og þar hefur hún gert starfsemi virkjunarinnar nánast sporlausa.