Sjálfbærnistefnan er skuldbinding Orkuveitunnar um að sýna umhverfinu, auðlindum og samfélagi virðingu. Í því skyni eru viðhafðir vandaðir stjórnarhættir, sem miða að stöðugum umbótum. Stefnan er grundvöllur farsælla ákvarðana og góðs samstarfs sem byggist á gegnsæi í upplýsingagjöf. Orkuveitan kallar eftir skoðunum hagsmunaaðila á því hvort starfsemi samstæðunnar sé sjálfbær og bregst við ábendingum með ábyrgum hætti. Sjálfbærnistefnan byggir á gildum Orkuveitunnar – frumkvæði, hagsýni, framsýni og heiðarleika – og er sett fram til samræmis við leiðarljós eigendastefnu fyrirtækisins.
Sjálfbærnistefnan er sett fram með eftirfarandi áherslum sem fylgt er eftir með skilgreiningu þýðingarmikilla sjálfbærniþátta. Móðurfélagið veitir faglegan stuðning og mótar sjálfbærnimarkmið fyrir samstæðuna í heild.
Orkuveitan stefnir á kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 og einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040. Þannig minnkar kolefnisspor samfélagsins alls.
Jafnframt er viðnámsþróttur samfélagsins efldur með aðlögun þjónustukerfanna að loftslagsbreytingum.
Hvert fyrirtæki vinnur eftir eigin markmiðum og stýrir sinni loftslagstengdu áhættu.
Orkuveitunni er falin mikil ábyrgð á þeim auðlindum sem hún nýtir. Ábyrg nýting felst í því að komandi kynslóðir búi við samsvarandi tækifæri og núlifandi kynslóðir til að nýta auðlindirnar og að unnt sé að staðfesta að þannig sé að verki staðið. Orkuveitan skuldbindur sig til þess að leita farsælla lausna þar sem auðlindanýting í almannaþágu er vegin og metin í samhengi við aðra hagsmuni, þar með talinn líffræðilegan fjölbreytileika. Orkuveitan mun verja auðlindirnar fyrir hættum og ágengni, vegna þeirrar ábyrgðar sem fyrirtækinu er falin.
Orkuveitan gerir sér grein fyrir því að þjónusta samstæðunnar er undirstaða lífsgæða í samfélaginu. Aðgangur að veitum Orkuveitan stuðlar að heilnæmum lífsskilyrðum fólks og tækifærum til umhverfisvænnar starfsemi. Hnökralaus þjónusta samstæðunnar, á sanngjörnu verði, er því lykilatriði.
Við starfsemi Orkuveitunnar losna efni og orka út í umhverfið. Orkuveitan gætir fyllstu varúðar í starfsemi sinni og stefnir að sporléttri vinnslu og starfsemi. Losun fer því aðeins fram að áhrif á heilsu séu hverfandi og áhrif á umhverfi viðunandi og minnkandi. Orkuveitan dregur úr losun mengandi efna eins og kostur er og leggur áherslu á rannsóknir og þróun til að geta nýtt bestu mögulegu lausnir þar sem hringrásarhugsun er í forgangi.
Orkuveitan er stórt fyrirtæki á landsvísu sem býr að þekkingu, reynslu og sögu. Orkuveitan miðlar þekkingu og beitir áhrifum í virðiskeðjunni þar sem hvatt er til ábyrgrar umgengni við umhverfið, ábyrgrar neysluhegðunar og jákvæðra áhrifa á mannréttindi. Orkuveitan nýtir stöðu sína og þekkingu til nýsköpunar og framþróunar sem nýtist starfsemi samstæðunnar.
Sem stórt og áberandi fyrirtæki skiptir máli að Orkuveitan sé góð fyrirmynd. Rekstur Orkuveitunnar byggir á góðri nýtingu aðfanga, vönduðum vinnubrögðum og gæðum framleiðslu og þjónustu. Orkuveitan stuðlar að menningu þar sem virðing ríkir í samskiptum milli starfsfólks og samskiptum þess við aðra.
Orkuveitan hlítir öllum ákvæðum laga og reglugerða sem um starfsemina gilda.
Orkuveitan hefur skilgreint eftirfarandi sjálfbærniþætti sem þýðingarmikla með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í sjálfbærnistefnunni. Orkuveitan setur sér markmið um þessa þætti og skilgreinir ábyrgð: