Eigendastefna Orkuveitu Reykjavíkur

Um eigendastefnuna

Með skýrri stefnumörkun eigenda, vel skilgreindu hlutverki fyrirtækis, skýru umboði handhafa eigendavalds, stjórnar og forstjóra, lýsingu á kröfum um stjórnunarhætti, ásamt öflugu eftirlitskerfi skapast fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga forsendur til að annast tiltekna starfsemi í þágu almennings.

Með skýrri eigendastefnu er leitast við að skýra hlutverk og ábyrgð eigendanna og tryggja þátttöku þeirra í ákvörðunum um mikilvæg málefni og stefnumörkun. Þannig á eigendastefnan að tryggja lýðræðislega, gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun fyrirtækisins.

Eigendastefnan er samstarfssáttmáli eigenda og verða ekki gerðar á henni breytingar nema í samkomulagi þeirra, samþykktar af sveitarstjórnum og staðfestar á eigendafundi.

Eigendastefnan skal vera almenningi og fjölmiðlum aðgengileg, meðal annars á heimasíðum Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda hennar.

Skýrslur um framfylgd eigendastefnu OR

  1. Leiðarljós

Í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur skal áhersla lögð á virðingu gagnvart umhverfinu, ábyrga nýtingu auðlinda og ábyrga nýtingu fjármuna. Orkuveita Reykjavíkur kemur fram af heilindum og trausti og rækir samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Fyrirtækið ber hag samfélagsins fyrir brjósti og umgengst náttúruna, auðlindir og viðskiptavini af virðingu. Eigendur vilja að litið verði til fyrirtækisins sem trausts samstarfsaðila, sem eftirsóknarvert sé að starfa fyrir og með og að það gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu.

  1. Hlutverk

Orkuveita Reykjavíkur er orku- og veitufyrirtæki sem leggur grunn að lífsgæðum í þeim sveitarfélögum sem hún þjónar. Hún nýtir auðlindir á ábyrgan, sjálfbæran og hagkvæman hátt og af virðingu fyrir náttúrunni án þess að ganga á rétt komandi kynslóða.

Orkuveita Reykjavíkur fer með lögbundin veituverkefni og önnur verkefni í sveitarfélögum eigenda og annarra sveitarfélaga í samræmi við stefnu þessa.

Orkuveita Reykjavíkur þjónar heimilum á veitusvæði sínu, fyrirtækjum og stofnunum í samræmi við lögbundnar skyldur og tryggir umsamin gæði og afhendingaröryggi á vörum og þjónustu fyrirtækisins.

Orkuveita Reykjavíkur skal tryggja viðskiptavinum þjónustu á sanngjörnu og samkeppnishæfu verði.

  1. Kjarnastarfsemi

Kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur felst í rekstri vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu, sölu og framleiðslu á rafmagni og heitu og köldu vatni. Orkuveita Reykjavíkur getur nýtt þekkingu fyrirtækisins til þátttöku í öðrum veiturekstri, s.s. rekstri gagnaveitu, enda þjóni hann markmiðum eigenda og þátttakan hljóti samþykki þeirra.

  1. Starfssvæði

Meginstarfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur er Suðvesturland. Tækifæri annars staðar eru skoðuð út frá hlutverki fyrirtækisins, arðsemi og áhættu og skulu staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra.

  1. Stjórnarhættir

Stjórnarhættir Orkuveitu Reykjavíkur eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum.

  1. Stefnumótun

Stjórn skal leggja fram tillögu að stefnumörkun og framtíðarsýn fyrirtækisins með útfærslu á mælikvörðum og greinargerð fyrir eigendafund til staðfestingar. Tillagan skal taka til heildarstefnumörkunar og stefnumótunar varðandi:

  • Arðgreiðslustefnu
  • Áhættustefnu
  • Gæðastefnu
  • Innkaupastefnu
  • Jafnréttisstefnu
  • Siðareglna
  • Starfskjarastefnu
  • Mannauðsstefnu
  • Stefnu varðandi öryggis-, heilsu- og vinnuvernd
  • Umhverfis- og auðlindastefnu
  • Upplýsingatæknistefnu
  • Upplýsingaöryggisstefnu

Við undirbúning stefnumótunar skal stjórn líta til áherslna eigenda varðandi fjárhagsleg markmið og arðsemi (6.1), áhættu (6.2), umhverfi og auðlindanýtingu (6.3) og starfskjör (6.4).

Stefnumörkun fyrir dótturfyrirtæki skal samræmast gildandi stefnu á hverjum tíma í ofangreindum málefnum.

6.1 Fjárhagsleg markmið

Stjórn og stjórnendum fyrirtækisins ber að sýna ráðdeild í rekstri og fjárfestingum.

Arðstefna Orkuveitu Reykjavíkur skal skila eigendum ávöxtun á fjármagn sem bundið er í fyrirtækinu í samræmi við þá áhættu sem fólgin er í rekstri og fjármögnun fyrirtækisins. Arðsemi fjármagns skal að lágmarki vera umfram fjármagnskostnað fyrirtækisins sem nemur eðlilegu áhættuálagi í samræmi við rekstrarumhverfi Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveita Reykjavíkur skal innleiða mælikvarða sem sýna hvernig arðsemiskröfu eigenda er mætt að teknu tilliti til áhættu þeirra af ábyrgðum vegna fyrirtækisins. Skal arðsemiskrafan greind eftir starfsþáttum, áhættu hvers starfsþáttar og fjármögnun hans. Tillaga stjórnar og greinargerð um arðsemi- og fjárhagsmælikvarða skal lögð fyrir eigendafund til staðfestingar.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skal gera tillögu til eigendafundar um arðgreiðslustefnu sem felur í sér að arður er að jafnaði greiddur út til eigenda að fjárhagslegum skilyrðum uppfylltum, m.a. að fjárhagslegur styrkleiki fyrirtækisins sé nægur og nægt laust fé sé til staðar til reksturs og fjárfestinga félagsins.

6.2 Áhætta í rekstri

Orkuveitu Reykjavíkur ber að setja sér áhættustefnu til að draga sem kostur er úr áhrifum ytri fjárhagslegra áhættuþátta á tekjur, þjónustu, eignir og skuldir fyrirtækisins. Áður en ákvarðanir eru teknar um fjárfestingar og fjárskuldbindingar ber Orkuveitu Reykjavíkur að meta áhættu sem í þeim kann að felast..

Orkuveitu Reykjavíkur ber almennt að fjármagna framkvæmdir í sama gjaldmiðli og væntanlegar tekjur þeirra.

Til skuldbindinga teljast m.a. ný lán, skuldbreytingar þar sem lánakjör eru frábrugðin fyrri samningum, orkusölusamningar og kaup á jörðum eða búnaði. Skuldbindingum, sem stjórn vísar til eigenda, skal fylgja greinargott áhættumat.

Orkuveita Reykjavíkur setur sér viðbragðsáætlanir sem skulu tryggja eftir því sem kostur er öryggi varðandi rekstur, þjónustu og eignir fyrirtækisins ef upp koma ógnir, svo sem af völdum náttúruhamfara, slysa eða af öðrum ástæðum. Viðbragðsáætlanir skulu með eðlilegum hætti samræmast áætlunum almannavarna ríkis og sveitarfélaga á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur og öðrum öryggisráðstöfunum opinberra aðila.

6.3 Umhverfi og auðlindanýting

Orkuveita Reykjavíkur skal leitast við að bæta nýtingu auðlinda og aðfanga í samræmi við sjónarmið sjálfbærrar þróunar.

Orkuveita Reykjavíkur skal árlega reikna og gera opinbert mat á verðmæti auðlindanýtingar eftir gerð auðlinda, hvort sem þær eru í eigu fyrirtækisins eða annarra.

6.4 Starfskjör

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skal setja fyrirtækinu starfskjarastefnu sem felur í sér hófsemi varðandi laun- og starfskjör starfsfólks. Laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Launakjör stjórnenda og annars starfsliðs Orkuveitu Reykjavíkur skulu ekki vera leiðandi á vinnumarkaði.

  1. Samskipti og upplýsingagjöf

Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur vilja skapa stjórn fyrirtækisins það umhverfi að hún geti á hverjum tíma gert skyldur sínar í þágu hagsmuna fyrirtækisins og innan markaðrar stefnu eigenda. Í þessu skyni skulu samskipti milli eigenda og fyrirtækisins vera eftir formlegum leiðum og leitast skal við að beina þeim í farveg aðalfunda og reglubundinna eigendafunda.

Þetta leggur ríka upplýsingaskyldu á Orkuveituna gagnvart eigendum sem um er fjallað í sameignarsamningi.

Orkuveita Reykjavíkur skal vera til fyrirmyndar um upplýsingagjöf til almennings. Upplýsingar um starfsemina skulu vera settar fram á þann hátt að almennir lesendur fái skýra sýn á hana.

Handhafar eigendavalds leitast við að efla upplýsta og lýðræðislega umræðu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur á vettvangi sveitarstjórnanna og á fundum eigenda.

  1. Ákvarðanir sem hljóta skulu samþykki eigenda

Eftirfarandi ákvarðanir stjórnar skulu hljóta samþykki eigenda:

Nýjar skuldbindingar: Fari fjárhæð einstakra nýrra skuldbindinga Orkuveitu Reykjavíkur yfir 5% af bókfærðu eigin fé samkvæmt síðasta ársreikningi eða árshlutareikning skal viðkomandi skuldbinding lögð fyrir eigendur til samþykktar áður en til hennar er stofnað.

Óvenjulegar og stefnumarkandi ákvarðanir ásamt áhættumati skal stjórn leggja fyrir eigendur til að gera eigendum kleift meta þær í samræmi við hlutverk sitt sem ábyrgðaraðila.

Áform um virkjanir eða aðra nýtingu auðlinda á óröskuðum svæðum, sem og þær framkvæmdir, sem krefjast mats á umhverfisáhrifum, hvort sem svæðin eru í eigu Orkuveitu Reykjavíkur eða annarra, teljast til veigamikilla og stefnumarkandi ákvarðana og skulu því koma til kasta eigenda.


Reykjavík, 25. apríl 2014.
F.h. Akraneskaupstaðar F.h. Reykjavíkurborgar F.h. Borgarbyggðar
Regína Ásvaldsdóttir Jón Gnarr Páll S. Brynjarsson