Vindorkukostur við Dyraveg

Rannsóknir og matsáætlun á vindorkukosti við Dyraveg

Orkuveitan hefur lagt fram matsáætlun, sem er fyrsta skrefið í umhverfismati, til Skipulagsstofnunar vegna vindorkukosts sem fyrirtækið hefur nú til skoðunar við Dyraveg á Hellisheiði, innan Sveitarfélagsins Ölfuss. Með matsáætluninni gefst leyfisveitendum og fagstofnunum, sem og hagsmunaðilum og almenningi, kostur á að veita verkefninu umsögn.

Orkuveitan leggur áherslu á að eiga í góðu og upplýstu samtali við alla hagaðila og kappkostar að fá fram skoðanir og sjónarmið sem flestra sem munu nýtast fyrir þróun og hönnun verkefnisins. Orkuveitan hvetur því öll til að veita verkefninu umsögn.

Orkuveitan vill halda því til haga að engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort til framkvæmda komi. Um er að ræða tillögu að virkjunarkosti sem bíður niðurstöðu verkefnastjórnar rammaáætlunar. Ef kosturinn fellur í nýtingarflokk, og áður en ákvörðun um framkvæmd verður tekin, er nauðsynlegt að ráðast í ítarlegar rannsóknir og meta áhrif á náttúru, nærumhverfi og samfélag auk þess sem leggja þarf mat á hagkvæmni verkefnisins.

Vindorkukostur við Dyraveg

Vindorkukosturinn við Dyraveg er einn af þremur vindorkukostum sem Orkuveitan er með til skoðunar á Hellisheiði.

Orkuveitan skilaði beiðni um skoðun á orkukostunum til Umhverfis- og orkustofnunar sem vísaði þeim áfram til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar sem metur þá og flokkar í bið-, verndar- eða orkunýtingarflokk. Sem fyrr segir er beðið niðurstöðu verkefnastjórnar.

Rannsóknir á hinum orkukostunum eru mun skemur á veg komnar og færu þeir hvor um sig í sér umhverfismat ef til þess kæmi. Vindorkukostirnir þrír eru óháðir hver öðrum rekstrarlega þó að möguleg samlegðaráhrif geti verið með þeim sem kenndir eru við Dyraveg og Lyklafell (sjá mynd).

Orkukostir - Dyravegur og Lyklafell.jpg

Helstu upplýsingar um vindorkukostinn við dyraveg
  • Sveitarfélag​: Ölfus​
  • Tillaga​: 50 til 108 MW​
  • Áætluð árleg orkuvinnslugeta​: 426 GWh/ár​
  • Fjöldi vindmylla​: 7 - 15 stk. (m.v. 7,2 MW myllur)​
  • Hæð spaða í efstu stöðu​: 150 - 210 m​
  • Áætlað framkvæmdarsvæði​: 7,2 km2 ​

Rannsóknir á vindgæðum og umhverfi

Undirbúningur að vindorkukostinum við Dyraveg er einungis á allra fyrstu skrefum. Áður en ákvörðun um framkvæmd er tekin þarf meðal annars að gera rannsóknir og afla nákvæmra gagna um vindafar, sem nýtt verða t.d. við hönnun vindorkukostsins og greiningu á hagkvæmni hans.

Orkuveitan auglýsti fyrir nokkru útboð um kaup og uppsetningu 120 metra hás masturs sem notað verður við mælingarnar. Við uppsetningu verður stuðst við fyrirliggjandi innviði þar sem mögulegt er en vegslóði verður lagður að mastrinu. Uppsetning mastursins tekur um tvær til fjórar vikur. Vindmælingarnar munu standa yfir í að hámarki tvö ár, en að þeim loknum verður mastrið fjarlægt.

Samhliða þarf að ráðast í ítarlegar rannsóknir á mögulegum umhverfisáhrifum. Áætlað er að slíkar rannsóknir taki 2–4 ár en fyrsta skrefið í þeim er áðurnefnd matsáætlun.

Hvað er matsáætlun?

Ef framkvæmd er matsskyld þarf lögum samkvæmt að meta þau áhrif sem hún kann að hafa á umhverfið. Umhverfismatsferlið hefst á gerð matsáætlunar en með henni kynnir framkvæmdaraðili, í þessu tilfelli Orkuveitan, framkvæmdina og lýsir því hvernig hann áformar að standa að umhverfismati hennar.

Framkvæmdaraðili leggur svo matsáætlun fram til Skipulagsstofnunar sem kynnir hana almenningi og birtir á Skipulagsgátt og á vef stofnunarinnar. Stofnunin leitar svo umsagnar umsagnaraðila eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda og fagstofnana. Almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefst einnig kostur á að veita umsögn. Framkvæmdaraðila er gefinn kostur á að bregðast við umsögnum áður en Skipulagsstofnun gefur út álit um matsáætlun.

Skipulagsstofnun gefur svo út álit um matsáætlun sem inniheldur, eftir því sem við á hverju sinni, leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu.

Matsáætlanir og álit um þær má nálgast í gagnagrunni umhverfismats.

Staðarval mögulegra virkjunarkosta

Við þróun nýrra orkukosta hefur Orkuveitan sett sér það markmið að vinna í sem mestri sátt við samfélag og náttúru. Við staðarval vindorkukostanna var horft til þess að vera í nálægð við þegar röskuð svæði frekar en svæði þar sem hægt er að njóta náttúrunnar án þess að sjá manngerða hluti. Þá var horft til nálægðar við innviði, svo sem vegi og flutningslínur, og núverandi virkjunarsvæði Orkuveitunnar.

Staðarval tók jafnframt mið af áhrifum á fuglalíf og náttúruminjar sem og að takmarka sjónræn áhrif og hljóðmengun á óspillta náttúru og mikilvæga ferðamanna- og útivistarstaði.

Staðarval í hnotskurn:

  • Nálægð við þegar röskuð svæði
  • Nálægð við dreifi- og flutningskerfið og starfssvæði Orkuveitunnar eða dótturfélaga
  • Takmörkuðum áhrifum á fuglalíf og náttúruminjar
  • Takmörkuðum sjónrænum áhrifum og hljóðmengun við mikilvæga ferðamanna- og útivistarstaði sem og náttúru

Aukin eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku

Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku hefur aukist verulega á síðustu árum, bæði vegna íbúafjölgunar og stækkunar byggðar en ekki síður vegna markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Auðlindir Orkuveitunnar hafa endanlegan líftíma, og án markvissra aðgerða mun framleiðslugeta núverandi orkukosta minnka með tímanum. Því er brýnt að huga að fjölbreyttum lausnum í orkuöflun og nýta þá möguleika sem endurnýjanlegir orkugjafar bjóða upp á. Þá eru orkuskiptin eitt stærsta og mikilvægasta verkefni okkar kynslóðar í baráttunni gegn loftslagsvánni. Til að mæta þeim krefjandi áskorunum sem felast í orkuskiptunum er nauðsynlegt að auka framleiðslu á endurnýjanlegri raforku, og þar getur vindorka gegnt lykilhlutverki.

Orkufyrirtæki í almannaeigu

Orkuveitan er orku- og veitufyrirtæki í almannaeigu sem hefur um áratugaskeið verið burðarás í orkuöflun fyrir samfélagið. Hlutverk Orkuveitunnar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er treyst fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Í ljósi aukinnar þarfar og eftirspurnar eftir grænni orku er það ekki bara ábyrgt heldur nauðsynlegt að leita frekari orkukosta og virðist vindorka vera vel til þess fallin.

Sem fyrirtæki í almannaeigu er Orkuveitan meðvituð um þá ábyrgð sem fylgir því að sjá samfélaginu fyrir orku. Við viljum tryggja að orkuöflun sé unnin með hagsmuni almennings og umhverfisins að leiðarljósi. Þess vegna leggur Orkuveitan mikla áherslu á samráð og samvinnu við sveitarfélög, stjórnvöld og almenning við þróun og framkvæmd slíkra verkefna.

Umhverfisvernd og sjálfbærni er leiðarstef í allri okkar starfsemi, nú sem áður. Við höfum sett okkur strangar kröfur um vernd umhverfis í framkvæmdum og nýtingu auðlinda og vöndum mjög til verka í nýtingu landsins okkar til orkuframleiðslu.

Það er okkur mikilvægt að hlusta á allar raddir og viðhalda góðu samtali til að tryggja að ólík sjónarmið komi fram og við getum unnið saman að farsælli framtíð. Orkan sem við framleiðum er ekki aðeins fyrir okkur í dag, heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Með því að leggja áherslu á sjálfbærni og nýtingu á endurnýjanlegri orku erum við að byggja upp græna framtíð fyrir öll.

Orkuveitan minnir á að vinna við rammaáætlun byggir á lögbundnu ferli þar sem tillögur eru m.a. metnar af faghópum verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Ferlið byggir á miklu samráði en í samræmi við lög um rammaáætlun (lög nr. 48/2011) ber verkefnisstjórn m.a. að hafa samráð við opinberar stofnanir, hagaðila og félagasamtök.

Spurt og svarað
Hvar er Dyravegur?

Á Mosfellsheiði

Ítarlegra svar:
Dyravegur er á Mosfellsheiði, innan sveitarfélagsins Ölfuss. Svæðið er í um 8 km fjarlægð frá bæði Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun ásamt því að vera í grennd við Nesjavallaveg, háspennulínur og hitaveitulögnina frá Nesjavöllum. Svæðið er því innan landsvæðis sem almennt telst raskað af mannavöldum, s.s. með sjáanlegum mannvirkjum og í nálægð við dreifiveitur og starfssvæði Orkuveitunnar.

Hvernig rannsóknir verða gerðar við Dyraveg?

120 metra rannsóknamastur sem greinir vindafar. Mastrið mun standa í tvö ár.

Ítarlegra svar:
Við Dyraveg á að rannsaka vindafar og safna gögnum sem eru nauðsynleg við undirbúning virkjunar vindorku. Sett verður upp 120 metra mælimastur sem mun standa í 2 ár og verður svo tekið niður. Uppsetning mastursins tekur um 2-4 vikur. Niðurstöður þessara rannsókna verða nýttar við skoðun á hagkvæmni og hönnun vindmylla.
Samhliða vindmælingum þarf að ráðast í ítarlegar rannsóknir á mögulegum umhverfisáhrifum. Áætlað er að slíkar rannsóknir taki 2 ár.

Af hverju var þetta svæði valið?

Við staðarval var tekið tillit til umhverfisþátta og svæði valið sem þegar var raskað og stutt í innviði svo sem vegi og flutningslínur.

Ítarlegra svar:
Við þróun nýrra orkukosta hefur Orkuveitan sett sér það markmið að vinna í sem mestri sátt við samfélag og náttúru. Við staðarval var áhersla lögð á að vera í nálægð við þegar röskuð svæði til að lágmarka áhrif á umhverfi, náttúru og dýralíf sem og sjónræn áhrif við mikilvæg náttúru-, ferðamanna- og útivistarsvæði.

Hvað þarf til að reistur verði vindorkugarður við Dyraveg?

Orkukosturinn þarf að vera samþykktur í nýtingarflokk rammaáætlunar. Auk þess þarf að gera ítarlegar rannsóknir til að meta áhrif hans á umhverfi og nærsamfélag sem og hagkvæmni verkefnisins.

Ítarlegra svar:
Þegar afla á orku á Íslandi eru landsvæði skoðuð og flokkuð eftir verðmætum. Svæði sem falla í nýtingarflokk teljast vel fallin til orkuöflunar en þó að svæði sé flokkað í nýtingarflokk þarf þó enn að framkvæma rannsóknir og mat á svæðinu áður en ákvörðun er tekin um virkjun. Vindorkugarður við Dyraveg er lagður fram til skoðunar hjá verkefnastjórn Rammaáætlunar. Ef orkukosturinn verður flokkaður í nýtingarflokk fara fram ítarlegar rannsóknir áður en ákvörðun um virkjun er tekin. Áður en ákvörðun um framkvæmd verður tekin er nauðsynlegt að ráðast í ítarlegar rannsóknir og meta áhrif á náttúru, nærumhverfi og samfélag auk þess sem leggja þarf mat á hagkvæmni verkefnisins. Að lokum þarf að breyta aðalskipulagi sveitarfélagsins og vinna deiliskipulag.

Hvað er rammaáætlun?

Rammaáætlun er verkfæri til að greiða úr ágreiningi um nýtingu og verndun orkuauðlinda landsins.

Ítarlegra svar:

„Í náttúru Íslands er margs konar auð að finna. Má þar nefna óbyggð víðerni, jarðhita og vatnsmiklar ár, eldfjöll og sandauðnir, skóga og gróskumikil votlendi, vind, veðurofsa og þögn. Ásókn í þessar auðlindir af hálfu ýmissa hópa er mikil og vaxandi. Oft skarast hagsmunir þessara hópa og hefur það leitt til ágreinings um nýtingu landsins.

Rammaáætlun er verkfæri til að greiða úr þessum ágreiningi, og jafnframt samheiti yfir ákveðin lög, ferli og aðferðafræði sem hafa þróast samstíga gegnum tíðina til þess að leysa þetta verkefni á sem farsælastan hátt“

Af vef rammaáætlunar ramma.is

Hvað þýðir að búið sé að senda orkukost inn í rammaáætlun?

Orkuveitan hefur sent orkukostinn inn til Umhverfis- og orkustofnunar sem vísaði honum áfram til verkefnastjórnar rammaáætlunar. Beðið er niðurstaðna verkefnastjórnar.

Ítarlegra svar:
Í vinnu við fjórða og fimmta áfanga áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, hér eftir nefnd rammaáætlun, gafst orkufyrirtækjum kostur á að skila inn beiðni um virkjunarkosti til Umhverfis- og orkustofnunar sem síðan metur kostina. Ef nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir og Umhverfis- og orkustofnun telur þá nægjanlega skilgreinda, fara virkjunarkostirnir til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar. Verkefnastjórn fjallar í framhaldinu um virkjunarkosti og viðkomandi landsvæði. Faghópar verkefnastjórnar taka þá til frekari umfjöllunar, hver á sínu sviði, leggja á þá mat og skila þeim aftur til verkefnisstjórnar sem metur kostina og flokkar í bið-, verndar- eða orkunýtingarflokk. Um málsmeðferð og verklag verkefnastjórnar gildir að öðru leyti, 10. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Af hverju umhverfismat og matsáætlun?

Til að meta áhrif mögulegs virkjunarkosts á umhverfið.

Ítarlegra svar:
Umhverfismat framkvæmda felst í að meta og upplýsa um líkleg áhrif tiltekinna framkvæmda á umhverfið. Áhrifin eru greind, vægi þeirra metið og lagt til hvernig bregðast skuli við þeim. Umhverfismatsferlið hefst með gerð matsáætlunar en með henni lýsir framkvæmdaraðili því með hvaða hætti hann hyggst leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Matsáætlunin er svo lögð inn til álitsgerðar hjá Skipulagsstofnun. Í kjölfarið mun stofnunin birta áætlunina opinberlega og leita umsagna. Með birtingunni gefst hagsmunaaðilum og áhugasömum tækifæri á að kynna sér fyrirhugaða framkvæmd og koma athugasemdum á framfæri við framkvæmdaraðila. Umhverfismatsferli lýkur með áliti Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur hvort umhverfisáhrif framkvæmdar og mótvægisaðgerðir þyki ásættanleg eða ekki. Þá koma fram í umhverfismati skilyrði og takmarkanir sem framkvæmdaraðili þurfa að uppfylla ef til framkvæmdar kemur.

Hversu háar verða vindmyllurnar ef af verður?

150 metrar þegar spaðar eru í hæstu stöðu.

Ítarlegra svar:
Í matsáætlun er miðað við að spaðarnir geti náð í allt að 210 metra hæð, í hæstu stöðu. Þó er líklegra að spaðarnir verði í 150 metra hæð, í hæstu stöðu. Endanleg hæð skýrist betur með vindmælingum og framgangi verkefnisins. Ef til umhverfismats kemur verða útbúin kort og myndir sem ættu að gefa glögga mynd af sýnileika vindmyllanna.

Mun heyrast í vindmyllunum?

Já, vindmyllur gefa frá sér hljóð. Áætlað er að hljóðstyrkurinn nemi um 80 dB ef staðið er undir vindmyllu en um 40 dB í 400 metra fjarlægð frá henni, sem samsvarar hljóði úr hefðbundnum ísskáp.

Ítarlegra svar:
Vindmyllur hafa áhrif á hljóðvist en dregið hefur úr þeim á síðustu árum við frekari þróun og hönnun á vindmyllum. Til að meta áhrif á hljóðvist í næsta nágrenni við vindorkukostinn hefur verið unnið hljóðvistarkort en endanleg uppröðun, fjöldi, tegund og stærð vindmylla mun hafa áhrif á hljóðstig. Ef staðið er fyrir neðan vindmyllu ætti hljóðstyrkurinn frá henni að vera um 80 dB eða því sem samsvarar hávaða úr ryksugu. Eins og gefur að skilja lækkar hljóðstyrkurinn eftir því sem fjær dregur og er áætlað að hann sé um 50 dB í 100 metra fjarlægð, sem samsvarar hljóði úr örbylgjuofni, og um 40 dB í 400 metra fjarlægð eða því sem nemur hljóði úr hefðbundnum ísskáp.

Hvað verða vindmyllurnar margar ef til framkvæmda kemur?

Allt að 15 talsins.

Ítarlegra svar:
Endanlegur fjöldi vindmylla liggur ekki fyrir, ef til framkvæmda kemur. Í matsáætlun er gert ráð fyrir allt að 15 vindmyllum en rannsóknir og vindmælingar, sem og fýsileiki og hagkvæmni vindorkukostanna, munu leiða það í ljós.

Af hverju vindorka?

Aukin eftirspurn eftir grænni orku.

Ítarlegra svar:
Í ljósi íbúafjölgunar, þróunar byggðar og aukinnar eftirspurnar eftir grænni orku er brýnt að huga að fjölbreyttum lausnum í orkuöflun og nýta þá möguleika sem endurnýjanlegir orkugjafar bjóða upp á. Stefna Orkuveitunnar er að auka sjálfbæra og fjölbreytta orkuframleiðslu umtalsvert í markvissum skrefum og virðist vindorka vera vel til þess fallin. Núverandi orkukerfi mun ekki standa undir íbúaþróun og uppbyggingu næstu áratuga né ná að uppfylla stefnu stjórnvalda um orkuskipti í baráttunni við loftslagsvána. Jarðhiti og vatnsorka hafa lengi verið sterkar stoðir í orkuöflun Orkuveitunnar en þær eru ekki óþrjótandi. Það tekur langan tíma að undirbúa nýja jarðhita- og vatnsaflskosti og því er nauðsynlegt að horfa til fleiri lausna. Vindorka gæti létt á núverandi orkukerfi og gert okkur kleift að nýta auðlindirnar betur, með stöðugri og hagkvæmri raforkuframleiðslu til lengri tíma.

Með fjölgun endurnýjanlegra orkukosta eflum við orkuöryggi og stuðlum að loftslagsvænum lausnum. Vindorka getur gegnt lykilhlutverki í að skapa fjölbreyttara, öruggara og umhverfisvænna orkukerfi – fyrir komandi kynslóðir.

Er vindorka hagkvæmur orkukostur?

Já, vindorka er talin hagkvæmur orkukostur.

Ítarlegra svar:
Vindorka er almennt talin hagkvæmur orkukostur, en hagkvæmnin getur verið breytileg eftir aðstæðum. Þættir eins og vindstyrkur, aðgengi að vindorkusvæðum, aðstæður á markaði, kerfi og tækniframfarir hafa mikil áhrif á hversu hagkvæm hún er á hverjum stað.

Er Orkuveitan búin að ákveða að virkja á þessu svæði?

Nei, ekki hefur verið tekin ákvörðun um að virkja á þessu stigi málsins.

Ítarlegra svar:
Ákvörðun um hvort virkjað verði á svæðinu hefur ekki verið tekin sem stendur. Forsenda ákvörðunartöku um að virkja er að virkjanakosturinn sé settur í nýtingarflokk rammaáætlunar. Áður en ákvörðun er tekin er nauðsynlegt að ráðast í ítarlegar rannsóknir sem meta áhrif á náttúru, nærumhverfi og samfélag auk þess að leggja þarf mat á hagkvæmni verkefnisins og vinna breytingar á skipulagi sveitarfélagsins. Vindorkuverkefnið hefst með vindmælingum sem munu veita gögn og upplýsingar um mögulega hagkvæmni og arðbærni og þannig styðja við upplýsta ákvarðanatöku í framhaldinu.