Hérna er hægt að sjá svör við algengum spurningum um verkefnið
Í stuttu máli já. Uppsett afl á Íslandi og því framleiðslugeta á orku er mjög mikil og margfalt meiri en orkan sem allir rafbílar á landinu þyrftu. Hins vegar er áskorunin fyrir fjölda rafbíla ekki orkan heldur aflið sem þarf til þess að geta hlaðið þá alla á sama eða svipuðum tíma. Hægt er að sjá útskýringuna á muninum á afli og orku hér að ofan.
Margir sem eiga rafbíl hlaða ef til vill ennþá með „venjulegri“ hleðslusnúru sem fylgir oft með bílnum. Með því að hlaða með hleðslustöð er meira öryggi því að venjulegir heimilistenglar eru ekki gerðir fyrir svo mikið álag í lengri tíma og oft geta verið önnur heimilistæki tengd inn á sömu rás. Einnig er hleðsluhraðinn minni en venjuleg snúra ætti að ná mest 3,6 kW hleðsluafli. Með því að nota hleðslustöð er auðveldlega hægt að fá 7,2 – 11 kW hleðsluafl, sem þýðir að þá er hægt að hlaða mikið hraðar.
Þessi hugtök eru náskyld en eru þó ekki jafngild. Bæði eru þau mælieining á magni , en afl tekur tillit til tíma en orka ekki. Afl segir til um hversu mikið rafmagn er verið að nota eða framleiða á ákveðnu augnabliki en orka segir til um hversu mikið er til af rafmagni. Við getum útskýrt þetta með dæmi um rafbíl. Segjum sem svo að rafbíll sé með batterí sem er 45 kWst. KWst stendur fyrir kílówattstundir og er mæleining á orku. Ef að við hlöðum þennan bíl í hefðbundinni heimahleðslustöð sem eru 7,2 kW sem þýðir kílówött og er mælieining á afli, þá tæki rúmlega 6 klukkutíma að hlaða bílinn. Með hleðslustöð sem er 7,2 kW þá getum við fengið 7,2 kW á hverju einasta augnabliki sem þýðir að ef við hlöðum í klukkutíma þá fáum við 7,2 kWst. Ef við hlöðum í tvo tíma þá eru það 14,4 kWst o.s.frv. Hins vegar ef við myndum hlaða rafbílinn á hraðhleðslustöð sem er með mun hærra afl, t.d. 50 kW, þá gætum við fullhlaðið bílinn á undir klukkutíma! Mikilvægt er að skilja muninn á þessum hugtökum því hann hefur mikil áhrif á rafbílainnleiðinguna. Ef að allir myndu vilja vera með hraðhleðslustöð heima hjá sér og alltaf hlaða á mjög háu afli, þá myndu innviðirnir ekki ráða við það, því að svo hátt afl er kannski jafnmikið og öll gatan í venjulegu íbúðahverfi væri að nota hverju sinni!
Álagsstýring (e. demand response) er samheiti yfir aðferðir sem hafa það að markmiði að breyta notkun á orku yfir tíma. Í tilfellinu með rafbíla þá eru þeir gjarnan hlaðnir á tímum þegar almenn orkunotkun er mikil eins og t.d. um kvöldmatarleytið. Álagsstýring fyrir rafbíla gengur því út á að færa til hleðsluna frá þessum óhagstæðu tímum fyrir kerfið yfir á aðra tíma þar sem almenn orkunotkun er minni. Það getur verið yfir daginn sjálfan eða seinna á kvöldin eða á nóttunni.
Ýmsar aðferðir eru til og byggja á mismunandi tækni og útfærslum. Til eru aðferðir sem eru tæknilega einfaldar eins og einfaldar breytingar á verðskrá. Það gæti til dæmis verið útfært á þann veginn að á næturna væri ódýrara að hlaða en á daginn og kvöldin. Það myndi vonandi hvetja einhverja rafbílaeigendur til þess að spara sér í hleðslukostnaði og myndi þá minnka álagið á kvöldin. Einnig eru til aðferðir sem eru snjallari og byggja á búnað í bíl eða hleðslustöð þar sem hlaðið er þegar það hentar kerfinu best en uppfyllir alltaf hleðslukröfur neytandans. Í verkefninu verða margar aðferðir skoðaðar til þess að komast að því hvað virkar best í raunverulegum aðstæðum.
Gagnaöryggi og persónuvernd er okkur efst í huga og meðferð allra gagna mun samræmast lögum persónuverndar og persónuverndarstefnu OR.
Söfnun ákveðinna gagna og upplýsinga er nauðsynlegt til þess ná fram markmiðum verkefnisins. Þeim gögnum sem safnað verður eru notkunarmunstur úr hleðslustöð og snjallmæli, ásamt upplýsingum umþátttakendurna sjálfa og svo svör þeirra við viðhorfskönnunum á meðan verkefninu stendur. Hér er hægt að sjá meira um gagnasöfnun og vinnslu þeirra í verkefninu.
Ef að þú ert með hleðslustöð frá ON í gegnum hleðslustöðvaáskriftina þeirra þá er þér velkomið að sækja um þátttöku í verkefninu. Mánaðargjaldið mun þá verða fellt niður og því muntu bara borga fyrir orkunotkun í gegnum stöðina eftir breytilegu verðskránni í verkefninu.