Orkuveitan og dótturfyrirtækin hafa umsjón með um 19.000 hekturum lands sem fyrirtækin hafa eignast til að fá afnot af auðlindum sem þar er að finna; jarðhita eða neysluvatni. Svæðin eru almenningi aðgengileg eins og kostur er og áhersla lögð á góða umgengni og vandaðan frágang eftir framkvæmdir á svæðunum.
Samhliða nýtingu auðlindanna hefur Orkuveitan og forverar fyrirtækisins unnið að landbótum. Skógrækt var lengi umfangsmikil, þar sem Elliðaárdalurinn og Öskjuhlíð eru áberandi dæmi.
Á helstu útivistarsvæðunum, í Heiðmörk og á Hengilssvæðinu, er stöðugt unnið að viðhaldi göngustíga og endurbótum merkinga fyrir ferðafólk. Í vaxandi mæli er sá gróður sem fyrir er tekinn til hliðar við framkvæmdir og hann nýttur til að endurheimta fyrri gróðurþekju.
Hér er unnið að umbótum á göngustíg á Hengilssvæðinu. Samanlögð lengd stíganna þar er um 110 kílómetrar.
Hér sést hvernig rask eftir framkvæmdir hefur verið bætt með staðargróðri. Nánar á vef Orku náttúrunnar.
Hér má sjá nokkrar fyrir og eftir myndir frá umbótum og lagningu göngustíga á Hengilssvæðinu.
Vegna legu landsins á mótum tveggja jarðskorpufleka er Ísland ríkt af jarðhita.
Talið er að Reykjavík dragi nafn sitt af gufunni sem lagði frá hverasvæðunum í Laugardal. Rétt austan við höfuðborgina liggur eldvirkt gosbelti sem nýtt er með virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði. Jarðhitinn er endurnýjanleg auðlind. Gæta þarf að því að nýting hans á hverjum stað sé ekki of ágeng með tilliti til þess hversu hröð endurnýjunin er.
Vinnslu úr jarðhita fylgir sú ábyrgð að hún hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki. Til þess er haft samráð við fjölda hagsmunaaðila virkjanarekstursins.
Til að hitinn berist úr jarðskorpunni til yfirborðs þarf vatn. Flestar hitaveitur landsins nota jarðhitavatnið beint úr jörðinni. Þannig var vatnið úr Þvottalaugunum í Laugardal fyrst nýtt til að hita hús í Reykjavík árið 1930. Innan eldvirka beltisins er jarðhitagufa notuð til að hita upp kalt vatn fyrir hitaveitur. Gufan er líka notuð til rafmagnsvinnslu.
Orkuveita Reykjavíkur hefur tryggt sér jarðhitaréttindi víða til að gegna hlutverki sínu en hitaveiturnar eru umfangsmesti veitureksturinn á vegum fyrirtækisins.
Uppbygging og rekstur hitaveitna er í höndum Veitna ohf. Smelltu hér til að fræðast meira um hitaveitur Veitna.
Orka náttúrunnar ohf. nýtir jarðhitann á Hengilssvæðinu í tveimur virkjunum. Smelltu hér til að fræðast meira um virkjanir ON.
Hagnýting jarðhitans hér á landi verður sífellt fjölbreyttari. Markmið þessarar fjölnýtingar er í senn að nýta betur orkuna sem fæst úr jarðhitasvæðunum og nota þau efni sem koma upp með jarðgufunni. Orka náttúrunnar rekur sérstakt þróunarsvæði við Hellisheiðarvirkjun í þessu skyni.
Smelltu hér til að fræðast um Jarðhitagarð ON.
Nýting okkar á vatnsafli felur í sér breytingu á hreyfiorku vatnsfalla í raforku. Elsta virkjun Orkuveitunnar með þetta hlutverk er Elliðaárstöð í Reykjavík sem var gangsett árið 1921.
Elliðaárstöðin er nú þungamiðja uppbyggingar sögu- og tæknisýningar, sem Orkuveitan undirbýr nú í Elliðaárdal.
Raforkuvinnslu úr vatnsafli fylgir sú ábyrgð að vinnslan hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki þess vatnsfalls sem virkjað er. Til þess er haft samráð við fjölda hagsmunaaðila virkjanarekstursins.
Vatnsaflsvirkjanir Reykvíkinga í Soginu voru lagðar inn í Landsvirkjun við stofnun þess fyrirtækis árið 1965. Orkuveitan eignaðist Andakílsárvirkjun í Borgarfirði þegar Akraneskaupstaður bættist í hóp eigenda OR árið 2002. Orka náttúrunnar rekur þá virkjun.
Smelltu hér til að fræðast meira um Andakílsárvirkjun.
Aðgangur að hreinu neysluvatni er ein verðmætasta auðlind fyrir íbúa og atvinnulíf.
Flestir líta á hreint neysluvatn sem sjálfsagðan þátt í daglegu lífi. Skortur á aðgengi að hreinu vatni getur haft alvarlegar afleiðingar og það er því óviðunandi að öryggi drykkjarvatns sé ógnað.
Sjálfbær nýting vatnsbóla felur í sér að komandi kynslóðir búi við sömu tækifæri og núlifandi kynslóðir til að nýta þau og að unnt sé að staðfesta að þannig sé að verki staðið. Vegna þeirrar ábyrgðar sem fyrirtækinu er falin mun Orkuveitan standa vörð um vatnsbólin fyrir hættum og ágengni.
Elstu vatnsból Orkuveitunnar eru Gvendarbrunnar í Heiðmörk. Þaðan var vatni fyrst veitt til bæjarins árið 1909 og enn þjóna Gvendarbrunnar borgarbúum.
Rekstur vatnsveitna er í höndum Veitna ohf., dótturfélags Orkuveitunnar.
Smelltu hér til að fræðast meira um vatnsvernd.
Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Akranesi og Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða eða frá um 60% þjóðarinnar. Þannig njóta öll upptökusvæði fráveitnanna hreinsunar á skólpi.
Hreinar strendur - alltaf, er markmið Veitna. Breyta þarf hönnun fráveitukerfisins svo óhreinsað skólp sé ekki losað í sjó vegna bilana eða viðhalds. Fyrsta dælustöð fráveitu af þeirri nýju kynslóð slíkra stöðva sem gera þetta mögulegt verður byggð á næstu árum.
Myndin sýnir uppbyggingu fráveitukerfis Veitna á höfuðborgarsvæðinu og hvar og hvernig fylgst er með því að fráveitukerfið gegni heilbrigðishlutverki sínu. Þá er unnið að innleiðingu svokallaðra blágrænna ofanvatnslausna. Þær fela í sér einfaldari og ódýrari leiðir við meðferð regnvatns þar sem það fellur og minnka þar með álag á fráveituna.
Raforkuvinnsla í rafstöðinni við Elliðaár lagðist af árið 2014 eftir að aðfallspípan, sem flutti vatn frá Árbæjarstíflu til rafstöðvarinnar, brast. Hún var úrskurðuð ónýt.
Í framhaldinu var skoðað hvort það gæti svarað kostnaði að gera við hana en niðurstaðan varð neikvæð; rafmagn frá stöðinni yrði svo dýrt að vandfundinn yrði kaupandi að því. Árið 2019 var kveðið upp úr með það að raforkuvinnsla hæfist ekki aftur í fyrirséðri framtíð. Þá var efnt til hugmyndasamkeppni um nýtt hlutverk mannvirkjanna sem öll höfðu verið friðuð árið 2012. Uppbyggingin undir merkjum Elliðaárstöðvar er afrakstur þeirrar vinnu.
Þegar ljóst var að raforkuvinnsla hæfist ekki að nýju var ákveðið haustið 2020 að hætta að árvissum, manngerðum sveiflum á yfirborði Árbæjarlóns og tæma það fyrir fullt og fast. Þótt sú aðgerð hafi verið umdeild hefur hún borið tilætlaðan árangur. Allar rannsóknir benda til að hún hafi reynst lífríkinu farsæl, sérstaklega laxinum í ánum. Reykjavíkurborg, sem er eigandi Elliðaárdals og Elliðaánna, skipaði stýrihóp til að gera tillögur um framtíð dalsins og í framhaldi af birtingu tillagna hópsins, árið 2021, stofnaði Orkuveita Reykjavíkur sérstakt verkefni um Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal. Formlegt samstarf hefur svo verið milli Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar síðan um framvinduna.
Þegar fyrir lá að raforkuvinnslu úr Elliðaánum var hætt virkjaðist sú grein vatnalaga sem fjallar um niðurlagningu mannvirkja. Samkvæmt henni ber Orkuveitu Reykjavíkur að skila niðurlagningaráætlun til Orkustofnunar og fá hana samþykkta. Í lögunum segir skýrum orðum: „Við niðurlagningu skal umhverfið fært eins og kostur er til fyrra horfs.“
Við þetta skapaðist árekstur milli ákvæðis vatnalaga – að færa dalinn og árnar og til þess horfs sem var fyrir virkjun – og húsafriðunarlaga, sem voru að baki þeirri víðtæku friðun allra raforkumannvirkjanna við Elliðaár, sem ákveðin hafði verið árið 2012. Á samráðsfundum með fulltrúum Minjastofnunar, Orkustofnunar, íbúum í nálægum hverfum og fleiri hagsmunaaðilum, fannst sá millivegur að þeim mannvirkjum sem mest neikvæð áhrif hafa á umhverfið – Árbæjarstíflu og aðrennslispípunni – megi gera talsvert veigamiklar breytingar á. Það varð niðurstaða Minjastofnunar síðla árs 2023 að fengnu áliti Húsafriðunarnefndar. Í framhaldinu er unnið að nánari útfærslu breytinganna samhliða skipulagsbreytingum.
Gildandi deiliskipulag endurspeglar raforkuvinnslu úr ánum. Því þarf að breyta. Þar sem fáar fyrirmyndir eru að niðurlagningu virkjana fór Orkuveita Reykjavíkur þess á leit við Reykjavíkurborg að tvinnað yrði saman vinnu að niðurlagningaráætlun og deiliskipulag. Deiliskipulagsferli eru þekkt og fyrirsjáanleg og opin fyrir aðkomu almennings. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur ákvað snemma árs 2023 að gera ekki athugasemd við að ferlin tvö yrðu samhliða.
Deiliskipulagsferlið í skipulagsgátt
Fjölmörg gögn hafa verið unnin til undirbúnings þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og á eftir að taka. Hér eru tenglar á þau helstu.
Minnisblað Verkís - Tæming á lóni við Árbæjarstíflu - áhrif á fuglalíf - 2020
Minnisblað Verkís - Talning á vatnafuglum á Elliðaám - 2021
Reykjavíkurborg - Vöktun fugla við Árbæjarstíflu - 2022
Laxfiskar - Fiskirannsóknir í Árbæjarkvísl - 2022
Skýrsla Verkís - Elliðaárvirkjun - ástandsskoðun
Skýrsla Verkís - Árbaejarstífla - valkostagreining
Skýrsla Verkís - Saga Árbæjarstíflu
Skýrsla stýrihóps um Elliðaárnar
Samningar Reykjavíkurborgar við Orkuveituna og Veitur og tengd gögn
Íbúafundur í Elliðaárdal 22. maí 2024 – kynning Orkuveitunnar
Íbúafundur í Elliðaárdal 22. maí 2024 – kynning Umhverfis- og skipulagssviðs