Vísindasjóður Orkuveitunnar – VOR

Orkuveitan auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Vísindasjóði Orkuveitunnar, sem gengur undir nafninu VOR.

VOR_fb.jpg

Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á starfssviði Orkuveitunnar með áherslu á þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem eru í forgangi hverju sinni í samræmi við stefnu fyrirtækisins.
Að þessu sinni er lögð áhersla á eftirfarandi heimsmarkmið:

  • Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
  • Sjálfbær orka
  • Aðgerðir í loftlagsmálum
  • Ábyrg neysla og framleiðsla
  • Jafnrétti kynjanna

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í tveimur flokkum, námsstyrki (tæknifræði-, meistara- og doktorsnemar) og verkefnastyrki. Hámark námsstyrkja er 1.250.000 kr. fyrir tæknifræði- og meistaranema og 5.000.000 kr. fyrir doktorsnema. Hámark verkefnastyrkja er 8.000.000 kr. Umsækjendur leggja fram lýsingu á rannsóknaverkefni sínu, gera grein fyrir tímalínu og kostnaði, og rökstyðja hvernig verkefnið tengist starfsviði Orkuveitunnar og þeim heimsmarkmiðum sem fyrirtækið leggur áherslu á.

Ákvörðun um styrki er tekin af stjórn VORs að fengnu áliti fagráðs sérfræðinga innan eða utan Orkuveitunnar. Í stjórn VORs sitja Gylfi Magnússon stjórnarformaður Orkuveitunnar, Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar og Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.

Áætlað er að opna fyrir umsóknir 2024 í nóvember. Fyrirspurnir má senda á netfangið vor@or.is. Öllum umsóknum verður svarað og farið með þær sem trúnaðarmál.

English version available here.