Niðurlagning Elliðaárvirkjunar

Raforkuvinnsla í rafstöðinni við Elliðaár lagðist af árið 2014 eftir að aðfallspípan, sem flutti vatn frá Árbæjarstíflu til rafstöðvarinnar, brast. Hún var úrskurðuð ónýt.

IMG_2421-Elliðaárdalur-UV.jpg

Í framhaldinu var skoðað hvort það gæti svarað kostnaði að gera við hana en niðurstaðan varð neikvæð; rafmagn frá stöðinni yrði svo dýrt að vandfundinn yrði kaupandi að því. Árið 2019 var kveðið upp úr með það að raforkuvinnsla hæfist ekki aftur í fyrirséðri framtíð. Þá var efnt til hugmyndasamkeppni um nýtt hlutverk mannvirkjanna sem öll höfðu verið friðuð árið 2012. Uppbyggingin undir merkjum Elliðaárstöðvar er afrakstur þeirrar vinnu.

Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal

Þegar ljóst var að raforkuvinnsla hæfist ekki að nýju var ákveðið haustið 2020 að hætta að árvissum, manngerðum sveiflum á yfirborði Árbæjarlóns og tæma það fyrir fullt og fast. Þótt sú aðgerð hafi verið umdeild hefur hún borið tilætlaðan árangur. Allar rannsóknir benda til að hún hafi reynst lífríkinu farsæl, sérstaklega laxinum í ánum. Reykjavíkurborg, sem er eigandi Elliðaárdals og Elliðaánna, skipaði stýrihóp til að gera tillögur um framtíð dalsins og í framhaldi af birtingu tillagna hópsins, árið 2021, stofnaði Orkuveita Reykjavíkur sérstakt verkefni um Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal. Formlegt samstarf hefur svo verið milli Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar síðan um framvinduna.

Vatnalögin

Þegar fyrir lá að raforkuvinnslu úr Elliðaánum var hætt virkjaðist sú grein vatnalaga sem fjallar um niðurlagningu mannvirkja. Samkvæmt henni ber Orkuveitu Reykjavíkur að skila niðurlagningaráætlun til Orkustofnunar og fá hana samþykkta. Í lögunum segir skýrum orðum: „Við niðurlagningu skal umhverfið fært eins og kostur er til fyrra horfs.“

Við þetta skapaðist árekstur milli ákvæðis vatnalaga – að færa dalinn og árnar og til þess horfs sem var fyrir virkjun – og húsafriðunarlaga, sem voru að baki þeirri víðtæku friðun allra raforkumannvirkjanna við Elliðaár, sem ákveðin hafði verið árið 2012. Á samráðsfundum með fulltrúum Minjastofnunar, Orkustofnunar, íbúum í nálægum hverfum og fleiri hagsmunaaðilum, fannst sá millivegur að þeim mannvirkjum sem mest neikvæð áhrif hafa á umhverfið – Árbæjarstíflu og aðrennslispípunni – megi gera talsvert veigamiklar breytingar á. Það varð niðurstaða Minjastofnunar síðla árs 2023 að fengnu áliti Húsafriðunarnefndar. Í framhaldinu er unnið að nánari útfærslu breytinganna samhliða skipulagsbreytingum.

Deiliskipulagsferli

Gildandi deiliskipulag endurspeglar raforkuvinnslu úr ánum. Því þarf að breyta. Þar sem fáar fyrirmyndir eru að niðurlagningu virkjana fór Orkuveita Reykjavíkur þess á leit við Reykjavíkurborg að tvinnað yrði saman vinnu að niðurlagningaráætlun og deiliskipulag. Deiliskipulagsferli eru þekkt og fyrirsjáanleg og opin fyrir aðkomu almennings. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur ákvað snemma árs 2023 að gera ekki athugasemd við að ferlin tvö yrðu samhliða.

Deiliskipulagsferlið í skipulagsgátt

Gögn

Fjölmörg gögn hafa verið unnin til undirbúnings þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og á eftir að taka. Hér eru tenglar á þau helstu.

Minnisblað Verkís - Tæming á lóni við Árbæjarstíflu - áhrif á fuglalíf - 2020

Minnisblað Verkís - Talning á vatnafuglum á Elliðaám - 2021

Reykjavíkurborg - Vöktun fugla við Árbæjarstíflu - 2022

Laxfiskar - Fiskirannsóknir í Árbæjarkvísl - 2022

Skýrsla Verkís - Elliðaárvirkjun - ástandsskoðun

Skýrsla Verkís - Árbaejarstífla - valkostagreining

Skýrsla Verkís - Saga Árbæjarstíflu

Skýrsla stýrihóps um Elliðaárnar

Samningar Reykjavíkurborgar við Orkuveituna og Veitur og tengd gögn

Íbúafundur í Elliðaárdal 22. maí 2024 – kynning Orkuveitunnar

Íbúafundur í Elliðaárdal 22. maí 2024 – kynning Umhverfis- og skipulagssviðs