Elliðaárdalur

Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði Reykvíkinga enda býður hann upp á fjölbreytta möguleika til útivistar. Þar eru stígar og brautir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og fræðsluskilti um jarðfræði og gróður dalsins.

Elliðaárstöð

Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906 til beislunar vatnsafls en Elliðaárdalurinn er vagga veitustarfsemi í borginni. Í árnar var fyrst sótt neysluvatn árið 1909, Rafstöðin var tekin í notkun árið 1921 og frá 7. áratug 20. aldar hefur hitaveitan sótt vatn i borholur í dalnum.

Starfsemi Orkuveitunnar í Elliðaárdalnum hefur frá upphafi tekið mið af lífríkinu í ánni enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurbær fól forvera Orkuveitunnar, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, umsjón með ánum frá árinu 1925 en þá hófst fiskiræktun í ánni og var um áratugaskeið rekin klakstöð við hana. Orkuveitan tók síðan við þessum skyldum við tilurð þess fyrirtækis árið 1999. Stangveiðifélag Reykjavíkur var stofnað 1939 og hefur það félag æ síðan haft árnar á leigu.

Starfsfólk Rafveitunnar hóf trjárækt í Elliðaárdalnum um 1951 og hélt þeirri vinnu áfram um árabil. Skógræktarfélag Reykjavíkur hóf síðan gróðursetningu í dalnum 1976 og tók að sér umsjón trjágróðurs í dalnum. Frá árinu 1996 hefur umsjón gróðurs í dalnum verið í höndum Reykjavíkurborgar.

Orkuveitan efndi árið 2019, í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, til hugmyndasamkeppni um endurhönnun gömlu bygginganna á Rafstöðvarreitnum og nánasta umhverfi.

Markmið Orkuveitunnar með uppbyggingu svæðisins er að fólk eigi greiðan aðgang að þessu einstaka svæði í borginni og greiða aðgengi fjölskyldna og annarra borgarbúa að þessum almannaeigum.

Framsýni fyrri tíma og ósýnileg virkni veitukerfanna er innblástur Elliðaárstöðvar, en hinn nýi áfangastaður mun bera nafn gömlu rafstöðvarinnar.

Lestu meira á ellidaarstod.is

Elliðaárdalur