Vegna legu landsins á mótum tveggja jarðskorpufleka er Ísland ríkt af jarðhita.
Talið er að Reykjavík dragi nafn sitt af gufunni sem lagði frá hverasvæðunum í Laugardal. Rétt austan við höfuðborgina liggur eldvirkt gosbelti sem nýtt er með virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði. Jarðhitinn er endurnýjanleg auðlind. Gæta þarf að því að nýting hans á hverjum stað sé ekki of ágeng með tilliti til þess hversu hröð endurnýjunin er.
Vinnslu úr jarðhita fylgir sú ábyrgð að hún hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki. Til þess er haft samráð við fjölda hagsmunaaðila virkjanarekstursins.
Til að hitinn berist úr jarðskorpunni til yfirborðs þarf vatn. Flestar hitaveitur landsins nota jarðhitavatnið beint úr jörðinni. Þannig var vatnið úr Þvottalaugunum í Laugardal fyrst nýtt til að hita hús í Reykjavík árið 1930. Innan eldvirka beltisins er jarðhitagufa notuð til að hita upp kalt vatn fyrir hitaveitur. Gufan er líka notuð til rafmagnsvinnslu.
Orkuveita Reykjavíkur hefur tryggt sér jarðhitaréttindi víða til að gegna hlutverki sínu en hitaveiturnar eru umfangsmesti veitureksturinn á vegum fyrirtækisins.
Uppbygging og rekstur hitaveitna er í höndum Veitna ohf. Smelltu hér til að fræðast meira um hitaveitur Veitna.
Orka náttúrunnar ohf. nýtir jarðhitann á Hengilssvæðinu í tveimur virkjunum. Smelltu hér til að fræðast meira um virkjanir ON.
Hagnýting jarðhitans hér á landi verður sífellt fjölbreyttari. Markmið þessarar fjölnýtingar er í senn að nýta betur orkuna sem fæst úr jarðhitasvæðunum og nota þau efni sem koma upp með jarðgufunni. Orka náttúrunnar rekur sérstakt þróunarsvæði við Hellisheiðarvirkjun í þessu skyni.
Nýting okkar á vatnsafli felur í sér breytingu á hreyfiorku vatnsfalla í raforku. Elsta virkjun Orkuveitunnar með þetta hlutverk er Elliðaárstöð í Reykjavík sem var gangsett árið 1921.
Elliðaárstöðin er nú þungamiðja uppbyggingar sögu- og tæknisýningar, sem Orkuveitan undirbýr nú í Elliðaárdal.
Smelltu hér til að fræðast meira um sögu- og tæknisýningu.
Raforkuvinnslu úr vatnsafli fylgir sú ábyrgð að vinnslan hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki þess vatnsfalls sem virkjað er. Til þess er haft samráð við fjölda hagsmunaaðila virkjanarekstursins.
Vatnsaflsvirkjanir Reykvíkinga í Soginu voru lagðar inn í Landsvirkjun við stofnun þess fyrirtækis árið 1965. Orkuveitan eignaðist Andakílsárvirkjun í Borgarfirði þegar Akraneskaupstaður bættist í hóp eigenda OR árið 2002. Orka náttúrunnar rekur þá virkjun.
Aðgangur að hreinu neysluvatni er ein verðmætasta auðlind fyrir íbúa og atvinnulíf.
Flestir líta á hreint neysluvatn sem sjálfsagðan þátt í daglegu lífi. Skortur á aðgengi að hreinu vatni getur haft alvarlegar afleiðingar og það er því óviðunandi að öryggi drykkjarvatns sé ógnað.
Sjálfbær nýting vatnsbóla felur í sér að komandi kynslóðir búi við sömu tækifæri og núlifandi kynslóðir til að nýta þau og að unnt sé að staðfesta að þannig sé að verki staðið. Vegna þeirrar ábyrgðar sem fyrirtækinu er falin mun Orkuveitan standa vörð um vatnsbólin fyrir hættum og ágengni.
Elstu vatnsból Orkuveitunnar eru Gvendarbrunnar í Heiðmörk. Þaðan var vatni fyrst veitt til bæjarins árið 1909 og enn þjóna Gvendarbrunnar borgarbúum.
Rekstur vatnsveitna er í höndum Veitna ohf., dótturfélags Orkuveitunnar.
Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Akranesi og Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða eða frá um 60% þjóðarinnar. Þannig njóta öll upptökusvæði fráveitnanna hreinsunar á skólpi.
Hreinar strendur - alltaf, er markmið Veitna. Breyta þarf hönnun fráveitukerfisins svo óhreinsað skólp sé ekki losað í sjó vegna bilana eða viðhalds. Fyrsta dælustöð fráveitu af þeirri nýju kynslóð slíkra stöðva sem gera þetta mögulegt verður byggð á næstu árum.
Myndin sýnir uppbyggingu fráveitukerfis Veitna á höfuðborgarsvæðinu og hvar og hvernig fylgst er með því að fráveitukerfið gegni heilbrigðishlutverki sínu. Þá er unnið að innleiðingu svokallaðra blágrænna ofanvatnslausna. Þær fela í sér einfaldari og ódýrari leiðir við meðferð regnvatns þar sem það fellur og minnka þar með álag á fráveituna.