Orkuveita Reykjavíkur orðin aðili að Nasdaq Sustainable Bond Network

30. jan 2020

Orkuveitan

Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið veitt aðild að hinu alþjóðlega Nasdaq Sustainable Bond Network (NSBN), sem er sameiginlegur vettvangur útgefenda grænna og samfélagslega ábyrgra skuldabréfa á Nasdaq verðbréfamörkuðunum víða um heim. OR er fyrst íslenskra útgefenda til að fá slíka aðild.

Markmið NSBN er að veita fjárfestum greiðan aðgang að upplýsingum um útgefendur grænna og á annan hátt samfélaglega ábyrgra skuldabréfa þannig að þeir geti sannreynt að um slíka útgáfu sé að ræða. Eftirspurn eftir slíkum skuldabréfum fer ört vaxandi og því mikilvægt að fjárfestar geti borið saman hina ýmsu útgefendur slíkra bréfa, hverjir hafi vottað útgáfuna, þau verkefni sem skuldabréfaútgáfan fjármagnar og framgang þeirra verkefna.

Markmið OR með aðildinni er að gera græn skuldabréf fyrirtækisins aðgengilegri fyrir erlenda fjárfesta, breikka þannig kaupendahópinn og á endanum fá betri lánakjör. Á opnum morgunverðarfundi í upphafi vikunnar kom fram hjá Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála hjá OR, að það gæti farið svo að Orkuveita Reykjavíkur myndi eingöngu gefa út græn skuldabréf í framtíðinni, enda teldust nánast öll fjárfestingarverkefni OR og dótturfyrirtækjanna umhverfisvæn.

Á þessum fundi, sem Orkuveita Reykjavíkur, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og IcelandSIF gengust fyrir, greindi einn fremsti sérfræðingur heims á sviði fjármögnunar fyrirtækja, dr. Ahmad A. Rahnema prófessor við alþjóðlega viðskiptaháskólanna IESE í Barcelona, meðal annars frá þeim mikla vexti sem er á markaði fyrir samfélagslega ábyrg skuldabréf.

Húsfyllir var á fundinum og má nálgast upptöku af honum hér.