Útboð á nýjum flokki grænna skuldabréfa 27. ágúst og breytingar á viðskiptavakt

15. ágú 2019

Orkuveitan

Nýr flokkur skuldabréfa OR 020934 GB

Fyrsta útboðið á grænum skuldabréfum Orkuveitu Reykjavíkur í nýjum flokki, OR 020934 GB, verður þriðjudaginn 27. ágúst næstkomandi.

Skuldabréfaflokkurinn er til 15 ára, ber fasta verðtryggða vexti og verður tekinn til viðskipta á Nasdaq Iceland Sustainable Bond markaðnum. Flokkurinn er jafngreiðsluflokkur með greiðslum höfuðstóls og vaxta á sex mánaða fresti og lokagjalddaga 2. september 2034.

Útboðið verður lokað og með hollenskri aðferð, þar sem öll skuldabréf verða seld á hæstu ávöxtunarkröfu sem tekið verður. OR áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er að hluta eða í heild eða hafna öllum. Niðurstöður útboðsins verða birtar opinberlega eigi síðar en næsta virka dag eftir útboð. Fossar markaðir hf. hafa umsjón með útboðinu og kynnir það fyrir hugsanlegum fjárfestum.

Viðskiptavakt

Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað samninga við Arion banka hf., Íslandsbanka hf., Kviku banka hf. og Landsbankann hf. um viðskiptavakt á eftirmarkaði með hinn nýja flokk. Stefnt er að töku skuldabréfanna til viðskipta 2. september og að skyldur viðskiptavaka samkvæmt samningi taki gildi sama dag.

Viðskiptavakar skuldbinda sig til að setja fram dag hvern, kaup- og sölutilboð í skuldabréfin í Kauphöllinni fyrir opnun markaðar. Tilboð skulu ávallt vera að lágmarki 20 m. kr. að nafnverði og skulu tilboð endurnýjuð eigi síðar en innan 15 mínútna frá því að þeim hefur verið tekið. Hámarksmunur kaup- og sölutilboða viðskiptavaka ákvarðast af verði gildra tilboða og má mest vera 1,0%. Viðskiptavökum er þó heimilt að víkja frá hámarksmun kaup- og sölutilboða þar til stærð flokksins hefur náð tveimur milljörðum. Eigi viðskiptavaki, á einum viðskiptadegi, viðskipti fyrir samanlagt 60 m. kr. eða meira að nafnvirði í flokknum í sjálfvirkri pörun er honum heimilt að víkja frá hámarksmun kaup- og sölutilboða það sem eftir lifir viðskiptadags.

Á sama tíma mun falla niður viðskiptavakt með flokkinn OR090524 en ekki verða frekari útgáfur skuldabréfa í þeim flokki vegna lágmarks lánstíma verðtryggðra lána. Viðskiptavakt með flokkinn OR090546 verður óbreytt.