Rekstur OR í traustu horfi

23. maí 2016

Orkuveitan

Afkoma Orkuveitu Reykjavíkur (OR) er stöðug og rekstrarhagnaður fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 svipaður og síðustu ár. Tekjur hafa vaxið en á móti vega hærri laun með nýjum kjarasamningum. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 4.850 mkr. fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 en var 4.831 mkr. á sama tímabili 2015. Árshlutareikningur samstæðu OR fyrir 1. ársfjórðung 2016 var samþykktur af stjórn OR í dag.

Heildarafkoma samstæðunnar er lakari nú en í fyrra og er veigamesta skýringin lægra álverð og lægra gengi Bandaríkjadals. Það hefur áhrif á reiknað verðmæti raforkusölusamninga og færist til gjalda í fjármagnsliðum uppgjörsins. Hagnaður tímabilsins reiknast 2,5 milljarðar króna en var 3,3 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi 2015.

Bjarni Bjarnason, forstjóri

Rekstur OR er í traustu og góðu horfi, afkoman stöðug og fjárhagurinn styrkist hægt og bítandi. Við erum á síðasta ári Plansins, aðgerðaáætlunarinnar sem hleypt var af stokkunum vorið 2011. Við höfum þegar náð meginmarkmiði þess og nú styttist í að fjárhagsleg skilyrði til arðgreiðslna verði uppfyllt. Nú stendur yfir greining á afkomu allra rekstrarþátta OR. Niðurstaða hennar verður efniviður í að móta framtíðarsýn í rekstri samstæðunnar þegar Planinu lýkur.

Rekstraryfirlit stjórnenda
Fjárhæðir eru í milljónum króna F1 2012 F1 2013 F1 2014* F1 2015 F1 2016
Rekstrartekjur 10.571 10.650 11.110 11.336
Rekstrarkostnaður (3.386) (3.361) (3.880) (4.079)
þ.a. orkukaup og flutningur (1.290) (1.441) (1.868) (1.635)
EBITDA 7.185 7.288 7.230 7.257
Afskriftir (2.295) (2.234) (2.399) (2.406)
Rekstrarhagnaður EBIT 4.890 5.054 4.831 4.850
Afkoma tímabilsins (3.998) 4.166 3.276 2.535
Sjóðstreymi:
Innleystar vaxtatekjur 58 88 172 2
Greidd vaxtagjöld (1.258) (1.113) (989) (679)
Handbært fé frá rekstri 4.713 5.169 5.246 4.998
Veltufé frá rekstri 5.316 5.289 6.145 6.129

*Ekki var gert uppgjör fyrir 1. ársfjórðung 2014 vegna uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur.

OR Árshlutareikningur samstæðu F1 2016

Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar F1 2016

Lykiltölur fjármála F1 2016