Talsverður tekjuauki vegna hás álverðs

23. maí 2022

Orkuveitan

Tekjur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 jukust um 14% frá fyrra ári og er helsta skýringin auknar tekjur Orku náttúrunnar af raforkusölu til stóriðju. Hagnaður tímabilsins nam 6,8 milljörðum króna en einskiptiskostnaður og tjón í óveðrum febrúarmánaðar hækkuðu rekstrarkostnað tímabilsins miðað við fyrsta ársfjórðung 2021.

Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fyrsta ársfjórðung 2022 var samþykktur á fundi stjórnar OR í dag. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

OR Árshlutareikningur samstæðu F1 2022

Hátt álverð

Verð á ýmissi hrávöru á heimsmarkaði hefur hækkað verulega síðustu mánuði og misseri. Þar á meðal er álverð en hluti raforkusölu Orku náttúrunnar er tengdur markaðsverði á áli. Álverðið var liðlega 50% hærra fyrstu þrjá mánuði ársins 2022 en 2021 og 90% hærra en 2020. Tekjuauki ON frá fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 til jafnlengdar í ár nam tæpum milljarði króna en áhættuvarnir draga úr heildaráhrifum álverðsins á niðurstöðu samstæðunnar. Tekjur annarra rekstrarþátta innan samstæðu OR jukust einnig, einkum vegna fjölgunar viðskiptavina og aukinnar notkunar hitaveitu Veitna.

Ofsaveðrið sem gekk yfir síðla febrúarmánaðar olli nokkru tjóni, einkum á loftlínum rafveitu Veitna, en víðtækar truflanir í raforkukerfinu vegna óveðursins skemmdu einnig dælubúnað í fráveitum. Aukinn viðhaldskostnaður skilar sér í hækkuðum rekstrarkostnaði í árshlutauppgjörinu.

Bjarni Bjarnason, forstjóri:

Orkuveita Reykjavíkur er ekki ónæm fyrir áhrifum verðbólgunnar sem er nú meiri en um árabil. Við finnum líka fyrir hækkandi vöxtum þar sem við höfum, í áhættuvarnarskyni, aukið vægi íslensku krónunnar í okkar fjármögnun. Verð á veituþjónustunni hefur í heildina sem betur fer lækkað að raungildi síðustu árin. Við þessar aðstæður sem nú eru uppi skiptir þó enn meira máli en áður að gæta hagsýni í allri okkar starfsemi. Þannig má draga úr líkum á að þær verðhækkanir sem við sjáum á verkkaupum og öðrum aðföngum okkar skili sér í heimilisbókhald almennings.

Lykiltölur fjármála OR

Á vef Orkuveitu Reykjavíkur er að finna myndræna framsetningu á ýmsum fjárhagslegum mælikvörðum og markmiðum þeim tengdum.

Lykiltölur fjármála OR