Hringiðuhádegi

3. apr 2024

Orkuveitan

Þann 17. apríl 2024 bjóða Orkuveitan og Klak í „Hringiðuhádegi“ á Á Bístró kl. 12-13.

Hringiðuhádegi er hádegisviðburður þar sem sprotafyrirtækin, sem taka þátt í Hringiðu 2024, halda örkynningu um verkefnin sín. Hringiða er viðskiptahraðall með það að markmiði að draga fram, efla og styðja við nýsköpunarverkefni á frumstigi, sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfis og sjálfbærni.

Orkuveitan er einn af bakhjörlum hraðalsins og við erum svo heppin að teymin sem taka þátt í Hringiðu vorið 2024 munu koma til okkar á Á Bístró í Elliðaárstöð og kynna viðskiptahugmyndirnar sínar í hádeginu þann 17. apríl. Að kynningunum loknum verður boðið upp á súpu og spjall við frumkvöðlana. Endilega mætið og kynnist nýsköpun sem Orkuveitan styður við.

Verið öll velkomin, en vegna takmarkaðs sætafjölda biðjum við ykkur um að skrá ykkur hér.

Það eru níu sprotafyrirtæki sem taka þátt í Hringiðu 2024, þau eru:

  • Arctic Fibers: Arctic Fibers er að umbreyta lúpínu á Íslandi í aðgengileg efni fyrir byggingariðnað, textíl og fleira.
  • Circula: Recoma Ísland endurvinnur samsettar pappaumbúðir svo sem Tetra Pak og framleiðir úr þeim grænar byggingaplötur
  • Ekkó: Ekkó framleiðir toghlera fyrir fiskveiðar. toghlerar Ekkó spara bæði olíu og svífa yfir botni hafsins og þar með vernda lífríkið á hafsbotni.
  • Flöff – textílvinnsla: Flöff ætlar að koma á fót fyrstu textíl endurvinnslustöðinni á Íslandi, þar sem ónothæfur textíll er brotinn niður og úr honum sköpuð ný verðmæti.
  • Í djúpum: Hrossatað á Íslandi er einstaklega van nýtt afurð. Í djúpum vinnur að því að búa til gæða áburð úr hrossataðinu og stemma þá sömuleiðis við innflutning á moltu og áburði.
  • : RÓ rannsakar og hannar vitsvæna nytjahluti með áherslu á veliðan og rósemi, bygða á stadbundnum hráefnum.
  • SeaGrowth: SeaGrowth ætlar að framleiða vistræktaðan fiskmassa úr fiskfrumum fyrir matvælaframleiðslu.
  • VELJA: Velja er hugbúnaðarlausn sem býður upp á fataleigu í formi ‘capsule’ fataskápa sem mætir fjölbreyttum fataþörfum einstaklinga á sjálfbæran hátt.
  • Visttorg: Visttorg safnar sjálfbærniupplýsingum fyrir byggingarvörur og setur þær á aðgengilegt stafrænt form