OR þátttakandi í alþjóðlega verkefninu HEATSTORE

5. jún 2020

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur er þáttakandi í HEATSTORE verkefninu, en það er samevrópskt verkefni sem 24 aðilar úr iðnaði, einkageira og rannsóknarsamfélögum níu landa taka þátt í. HEATSTORE gengur út á að skoða hvort fýsilegt sé að geyma varmaorku neðanjarðar til að mæta sveiflum í framboði og eftirspurn eftir orku.

Hlutverk OR í verkefninu er tvíþætt og snýr í báðum tilfellum að hermireikningum. Annar þátturinn skoðar fýsileika þess að geyma umfram varmaorku, sem framleidd er á sumrin í virkjunum, neðanjarðar í lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ svo að hægt sé að nýta hana að vetri til. Liður í þessu er að skoða hvort blöndun virkjanavatns, sem er upphitað grunnvatn, við jarðhitavatn á lághitasvæðum leysi útfellingavandamál sem verða þegar vatni af svo ólíkum uppruna og með ólíka efnasamsetningu er blandað saman í dreifikerfi hitaveitu. Einnig er rannsakað hvort það að dæla virkjanavatninu niður í lághitasvæðin veiti þrýstistuðning í þeim sem dugi fram á komandi vetur. Hefur hermilíkan af lághitasvæðunum á Reykjum og í Reykjahlíð í Mosfellsbæ þegar verið þróað til að skoða þetta nánar.

Heatstore logo.jpg

Hinn þátturinn í verkefninu snýr að samtvinnun hermilíkans OR af jarðhitakerfum í Henglinum og sérhæfðari líkana sem hermt geta eftir þeim aðstæðum sem fundist gætu djúpt í háhitakerfum á svæðinu. Til stendur að bora djúpa holu ofan í rætur jarðhitakerfana í Henglinum þar sem aðstæður eru lítt þekktar. Þessi hluti verkefnisins er unninn í nánu samstarfi við Thomas Driesner, prófessor við ETH tækniháskólann í Zürich, og hans teymi en þau hafa þróað hugbúnað sem getur hermt aðstæður í mjög heitum jarðlögum s.s. nærri kvikuinnskotum. Núverandi hermilíkan af Hengilssvæðinu nær einungis niður á dýpi núverandi vinnslusvæðis og inniheldur ekki dýpri hluta jarðhitakerfisins. Markmiðið með þessu samstarfi er að meta áhrif djúprar vinnslu á efra jarðhitakerfið. Sett hefur verið upp líkan sem nær niður á 5 km dýpi þar sem hægt er að setja inn kvikuinnskot af mismunandi stærðum og gerðum og skoða hvernig varmaflæði myndast frá þeim upp í grynnra jarðhitakerfið. Næstu skref verða að herma áhrif djúprar vinnslu eða niðurdælingar nærri kvikuinnskotum.

rannís logo.jpg

HEATSTORE er eitt af átta evrópskum verkefnum sem GEOTHERMICA verkefnasjóðurinn styrkir og Rannís er íslenski styrkjandinn. Ársfundur verkefnisins var haldinn með fjarfundabúnaði í seinustu viku. Þar sögðu þáttakendur frá framgangi verkefna og voru yfir 60 manns staddir á fundinum í einu. Góðar umræður sköpuðust og er gaman að finna hve vel gengur að halda svona stóra fundi með þessu nýja sniði sem bæði minnkar ferðalög og nýtir betur tíma!

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög taka þátt í margvíslegum rannsóknarverkefnum og lögð er áhersla á virkt samstarf milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins, bæði hérlendis og erlendis. Hér má sjá yfirlit yfir nokkur af þeim verkefnum.

Mynd: Skjáskot af hermun frá Benoit Lamy-Chappuis í ETH þar sem metið er hvernig varmaflæði myndast frá kvikuinnskotum og upp í grynnra jarðhitasvæðið undir Nesjavöllum, Hellisheiði og Hverahlíð.