Orkuveitan aðstoðar vegna jarðhræringa

10. nóv 2023

Orkuveitan

Sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur hafa fylgst grannt með stöðu mála á Reykjanesi frá því að skjálftahrinan hófst í grennd við Svartsengi. Þannig hafa Veitur verið í góðu sambandi við HS Veitur og boðið fram alla þá aðstoð sem fyrirtækið getur veitt.

„Við höfum verið að fara í gegnum þann búnað sem við eigum og gæti komið að notum fari að gjósa. Síðan höfum við myndað teymi innanhúss sem vinnur með HS Veitum til að vera tilbúin að koma til aðstoðar,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna.

Ljósleiðarinn hefur tekið þátt í samstarfsvettvangi fjarskiptastofu og fundað með öðrum fjarskiptafyrirtækjum vegna mögulegs goss. Ljóst er að hraunflæði gæti haft áhrif á fjarskiptasamband á svæðinu og hafa sérfræðingar Ljósleiðarans lagst yfir legu sinna fjarskiptalagna.

„Okkar mat er að gagnaflutningskerfi Ljósleiðarans á svæðinu þoli þær sviðsmyndir sem hafa verið dregnar upp af mögulegu hraunflæði. Þá höfum við einnig verið í vinnu með fyrirtækjum á svæðinu með að koma upp varaleiðum fyrir mikilvæga innviði,“ segir Einar Þórarinsson framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.

Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar segir mikilvægt að sú þekking sem sé til staðar hjá fyrirtækinu geti nýst þegar aðstæður sem þessar skapast.

„Ég lít svo á að það sé hreinlega skylda okkar að vera til staðar þegar svona áskoranir koma upp og ég er ánægður að heyra af því að fyrirtækin í samstæðunni séu að deila þekkingu sinni og reynslu með kollegum okkar á Reykjanesi. Það mun ekki standa á okkur að stíga enn frekar inn verði þess óskað,“ segir Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar.