OR fjölgar sumarstörfum vegna Covid-19

5. jún 2020

Orkuveitan

Sumarstörfum verður fjölgað um 30 hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögum til að koma til móts við erfitt atvinnuástand í landinu vegna Covid-19 faraldursins. Störfin bætast við þau ríflega 100 sumarstörf sem þegar hafa verið auglýst og ráðið í.

Störfin sem um ræðir eru af ýmsum toga. Þau krefjast margvíslegrar þekkingar enda starfsemi OR og dótturfyrirtækja víðfem og fjölbreytt, hvort sem litið er til framleiðsluþáttar þeirra eða þjónustuhlutans. Störfin eru ekki öll ætluð til að koma til móts við atvinnuleysi skólafólks heldur gefst öllum færi á að sækja um hluta þeirra. Ráðningartíminn er tveir mánuðir.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Mannauðs og menningar OR:

“ Vegna ástandsins hafa mörg fyrirtæki og stofnanir neyðst til þess að draga verulega saman seglin og fresta eða hætta alveg við ráðningar sumarstarfsfólks. OR samstæðan tekur hlutverk sitt sem samfélagslegur þegn alvarlega. Við teljum því mikilvægt að leggja okkar lóð á vogaskálarnar og ráða allt það sumarstarfsfólk sem áætlanir fyrir Covid-19 gerðu ráð fyrir og að auki gefa verulega í með þessum 30 nýju stöðugildum.”

Yfirlit yfir störfin sem í boði eru má finna á vef OR, or.is en umsóknarfrestur er til og með 14. júní. Unnið verður úr umsóknum um leið og þær berast og ráðið í störfin eins fljótt og kostur er.

Orkuveita Reykjavíkur á dótturfélögin Veitur, Orku náttúrunnar, Carbfix og Gagnaveitu Reykjavíkur sem rekur Ljósleiðarann.

Hér má sjá störfin sem eru í boði