Góðir gestir á Hellisheiði

19. ágú 2019

Orkuveitan

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar sótti Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar heim í dag með nokkru föruneyti til að kynna sér jarðhitanýtingu hér á landi og hið framsækna kolefnisbindingarverkefni CarbFix, sem rekið er við virkjunina.

Það var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem tók á móti sænskum starfsbróður sínum og Ullu, eiginkonu hans, ásamt Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni OR og Bjarna Bjarnasyni forstjóra.

Ferðin hófst á því að haldið var út á borteig við virkjunina þar sem borhola er í blæstri en sú tilfinning að standa við eina slíka skýrir flestu öðru betur hvaða krafta verið er að beisla í virkjuninni.

Að vettvangsferðinni lokinni var haldið á Jarðhitasýninguna í stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar. Þar hélt Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri erindi um jarðhitanýtingu og orkumál á Íslandi.

Loks sagði Edda Sif Pind Aradóttir frá CarbFix kolefnisbindingarverkefninu sem hún fer fyrir. Það felst í að koltvíoxíð, sem er snefilefni í jarðhitagufunni, er skilið út útblæstri virkjunarinnar, það bundið vatni og blöndunni dælt niður í jarðlögin við virkjunina þar sem koltvíoxíðið steinrennur. Þessi aðferð við að sporna við loftslagsvánni hefur vakið mikla alþjóðlega athygli og Bjarni Bjarnason færði Löfven að skilnaði brot af borkjarna þar sem gróðurhúsaloftið sést steinrunnið sem hvítir blettir í basaltinu.

Loftslagsmál eru einmitt í brennidepli á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna fimm sem haldinn er á Íslandi þessa dagana.

Fleiri myndir frá heimsókninni má sjá á Facebook-síðu OR með því að smella hér.