Siðareglur birgja OR-samstæðunnar kynntar

14. sep 2021

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið út siðareglur sem vænst er að birgjar fyrirtækjanna í OR-samstæðunni staðfesti að þeir fylgi. Siðareglurnar eru gefnar út í samræmi við áherslur OR í samfélagsábyrgð og forgangsröðun Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfseminni.

Styðja Heimsmarkmið SÞ

OR tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í öllu starfi samstæðunnar og á hverju ári kemur fram í Ársskýrslu OR hvernig stutt er við markmiðin. Á vinnustofu með ýmsum ytri hagsmunaaðilum, þar á meðal birgjum, hafnaði Heimsmarkmið 12 – Ábyrg neysla og framleiðsla í fyrsta sæti í áherslum fyrir starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Það markmið snýr meðal annars að ábyrgum innkaupum.

Byggðar á Global Compact

Í bréfi sem Bjarni Bjarnason forstjóri OR hefur sent liðlega 300 fyrirtækjum, sem selja OR vörur eða þjónustu, kemur fram að siðareglurnar séu byggðar á tíu grundvallarviðmiðum Global Compact, sem Orkuveita Reykjavíkur á aðild að. Efni þeirra komi þeim ekki á óvart sem tekið hafa þátt í útboðum á vegum OR enda eru siðreglurnar sama efnis og þær sjálfbærnikröfur sem gerðar eru við öll umfangsmeiri innkaup.

Í bréfinu er þess óskað að birgjarnir kynni sér reglurnar og staðfesti að fyrirtæki þeirra fylgi reglunum. Í Ársskýrslu OR verður birt hversu hátt hlutfall birgja hefur staðfest siðareglurnar og hversu hátt hlutfall viðskipta falli undir þær eða samsvarandi kröfur í útboðsskilmálum.

Siðareglur birgja OR og dótturfélaga.