Leiðir nýtt fagsvið Samhæfingar og stjórnsýslu hjá OR

22. ágú 2022

Orkuveitan

Sigríður Auður Arnardóttir hefur verið ráðin til Orkuveitu Reykjavíkur sem stjórnandi á nýju fagsviði Samhæfingar og stjórnsýslu sem heyrir undir forstjóra. Sigríður hefur gegnt embætti ráðuneytisstjóra í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, áður umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, frá árinu 2014 eftir að hafa verið staðgengill ráðuneytisstjóra.

Um er að ræða nýtt fagsvið og starf sem er m.a. ætlað að auka vægi samhæfingar verkefna og samtals Orkuveitusamstæðunnar við stjórnvöld, hagaðila og aðra til samræmis við hlutverk og metnaðarfull markmið samstæðunnar á sviði loftslags- orku- og umhverfismála.

„Víðtæk reynsla Sigríðar af störfum innan Stjórnarráðsins og þekking á íslenskri stjórnsýslu verður þýðingarmikil fyrir starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur í þessu nýja og mikilvæga starfi. Ég býð hana hjartanlega velkomna til starfa,“ segir Bjarni Bjarnason forstjóri OR.

Sigríður Auður, sem er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands, gegndi áður embætti skrifstofustjóra á skrifstofu umhverfis og skipulags frá árinu 2012, skrifstofu laga og stjórnsýslu frá 2007 og skrifstofu laga og upplýsingamála í ráðuneytinu frá 2003.

Sigríður Auður hefur verið formaður Ofanflóðanefndar frá árinu 2013, auk þess að hafa stýrt og setið í fjölda starfshópa og nefnda á vegum Stjórnarráðsins.