Aukin umsvif, mikilvægar fjárfestingar

10. okt 2023

Orkuveitan

Fjárhagsspá samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, sem samþykkt var af stjórn í dag, endurspeglar væntingar um mikla uppbyggingu nýs húsnæðis, sem kerfi Veitna munu þjóna, metnaðarfulla uppbyggingu Carbfix á nýrri kolefnisförgunarstöð við Straumsvík, víðtækari fjarskiptaþjónustu Ljósleiðarans og áherslur Orku náttúrunnar í þágu hringrásarhagkerfis og orkuskipta.

Spáin nær til áranna 2024 til og með 2028 og er samandregin fyrir Veitur, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix, auk móðurfélagsins. Spá hvers félags innan samstæðunnar hafði áður verið samþykkt í viðkomandi stjórn og fer spáin til frekari umfjöllunar sem hluti fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar.

Vaxandi tekjur

Auknar tekjur samstæðunnar á spátímabilinu má einkum rekja til aukinnar eftirspurnar eftir veituþjónustu samfara fjölgun íbúa á starfssvæði samstæðunnar. Stjórnvöld hafa uppi metnaðarfull áform í þeim efnum. Þá er stefnt að auknum tekjum af heildsölu raforku og að nýir og nýlegir tekjustofnar eflist, svo sem af rekstri Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi, víðtækari fjarskiptarekstri og svo af kolefnisförgun Carbfix.

Í fjárhagsspánni er gengið út frá því að gjaldskrár veituþjónustu fylgi almennt verðlagsþróun í landinu á spátímabilinu. Undanfarin ár hafa gjaldskrár Veitna lækkað að raungildi.

Spáin gerir ráð fyrir að árlegar tekjur samstæðunnar fari úr 65,1 milljarði króna 2024 í 97,9 ma.kr. árið 2028. Það er 50,4% vöxtur og í spánni er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður vaxi um 29,1%. Áætlanir um vöxt í starfsemi Carbfix hafa mikil áhrif á tekjuvöxt á síðustu árum spátímabilsins. Með auknum tekjum er gert ráð fyrir hækkandi arðsemi á spátímabilinu.

Mikilvægar fjárfestingar fyrir framtíðina

Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á spátímabilinu er bygging kolefnisförgunarstöðvarinnar Coda Terminal á vegum Carbfix. Verkefnið er einstakt á heimsvísu og markar tímamót í baráttu við loftslagsvána. Í stöðinni við Straumsvík er áformað að taka á móti koldíoxíði, sem flutt er þangað sjóleiðina, og binda það sem grjót í hraununum við Straum. Aðferðin hefur sannað sig við Hellisheiðarvirkjun þar sem hún var þróuð og prófuð með miklum árangri. Á meðal fjárfestingarverkefna Orku náttúrunnar á tímabili fjárhagsspárinnar er einmitt að auka hlutfall koldíoxíðs sem fangað er úr jarðgufunni og fargað með Carbfix tækninni og að hefja byggingu samskonar hreinsistöðvar við Nesjavallavirkjun.

Uppbygging veitukerfa, þar með talin lagning nýs landshrings fjarskipta, er einnig fyrirferðarmikil í fjárhagsspánni. Á spátímabilinu verður einnig lokið við átaksverkefni Veitna við snjallmælavæðingu á veitusvæðum fyrirtækisins og fyrirtækið mun leggja aukið fé til rannsókna og þróunar til að tryggja því aðgang að nægum heitavatnsforða til langrar framtíðar. Sjálfbærni orkuvinnslu á Hellisheiði verður efld með lagningu nýrrar gufulagnar frá jarðhitasvæðinu við Hverahlíð. Nýja lögnin verður við hlið þeirrar sem fyrir er.

Alls er gert ráð fyrir tæplega 230 milljarða króna fjárfestingum samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2024-2028.

Fjölbreyttari fjármögnun

Síðustu ár hefur fjármögnun fjárfestinga fyrirtækjanna í samstæðu OR að mestu verið með fé frá rekstrinum og svo á innlendum markaði, einkum með sölu grænna skuldabréfa af hálfu OR og Ljósleiðarans. Alþjóðlegt lánshæfismat OR er gott og eðlilegt er því að leita nú í auknu mæli til alþjóðlegra stofnanabanka.

Þá er sú breyting að verða á samstæðu OR að á árinu 2024 er gert ráð fyrir meðeigendum að tveimur fyrirtækjum í samstæðunni, Ljósleiðaranum og Carbfix. Endurfjármögnun Ljósleiðarans með aukningu hlutafjár og sölu þess er ætlað að styrkja efnahagsreikning félagsins og efla það sem lykilaðila að heilbrigðri samkeppni á fjarskiptamarkaði, almenningi og fyrirtækjum í landinu til hagsbóta. Sala hlutafjár í Carbfix er til að hraða uppbyggingu félagsins og standa undir fjárfestingum, hvorttveggja hér á landi og erlendis.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR:

„Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur endurspeglar þann metnað sem fyrirtækin í samstæðunni hafa fyrir lífsgæðum fólks og að vera bakhjarlar fyrir þróun öflugs, græns atvinnulífs. Með umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum er stutt við jákvæðan vöxt samfélagsins með áframhaldandi forystu í orkuskiptum, meðal annars með áhugaverðum hugmyndum um aukna orkuvinnslu.

Metnaður okkar byggir á mikilli þekkingu starfsfólks fyrirtækjanna allra, vilja þess til að þjóna núverandi viðskiptavinum sífellt betur um leið og sjónarmið sjálfbærninnar hvetja okkur til að horfa til langrar framtíðar.

Eftirspurn eftir umhverfisvænum afurðum starfsemi fyrirtækjanna í samstæðu OR vex mjög ört. Það á við hina hefðbundnu grænu veituþjónustu, endurnýjanlegu orkuna sem við framleiðum og svo núna nýja tækni til að takast á við loftslagsvána

Í þessari spá er að finna tímamótaverkefni í þágu okkar og komandi kynslóða og í fjárhagsspánni sýnum við hvernig við ætlum að láta þau raungerast. Það eru vissulega ýmsir óvissuþættir í umhverfinu en ég hef trú á að traust fjárhagsstaða samstæðunnar, góð tök á rekstri fyrirtækjanna og skörp sameiginleg sýn muni skila okkur mikilvægum áföngum á næstu árum.“

Útkomuspá 2023

Í fjárhagsspánni kemur einnig fram útkomuspá fyrir yfirstandandi ár. Gert er ráð fyrir liðlega sex milljarða króna hagnaði af starfsemi samstæðunnar á árinu. Helstu frávik frá því sem lagt var upp með fyrir ári síðan eru að fjárfestingum í Coda Terminal seinkaði og einnig sölu hlutafjár. Þá hefur verðbólga verið þrálátari en gert var ráð fyrir í forsendum fyrri spár.