Sterk staða kvenna hjá OR samstæðunni

14. des 2021

Orkuveitan

Áhrif kvenna innan orkufyrirtækja eru mest hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem gerð var af endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young fyrir Konur í orkumálum. Þetta er í þriðja sinn sem þessi samtök kvenna sem starfa hjá orku- og veitufyrirtækjum standa fyrir slíkri úttekt þar sem skoðað var hlutfall kvenna af stjórnendum og stjórnarmönnum hjá 12 stærstu orkufyrirtækjum landsins og staða þeirra greind með tilliti til ábyrgðar og ákvörðunarvalds innan fyrirtækjanna

Í ár kemur Orka náttúrunnar, dótturfélag OR, sterkast út hvað áhrif kvenna varðar og Orkuveita Reykjavíkur er í efsta sæti þegar litið er á úrtakið á samstæðugrunni. 60% stjórnarmanna fyrirtækisins eru konur, þar á meðal stjórnarformaðurinn. Forstjórinn er karlmaður en konur eru 50% annarra framkvæmdastjóra. Jafnframt er helmingur deildarstjóranna konur eða 7 af 14.

Staða kvenna innan orkugeirans hefur vænkast nokkuð á síðustu fjórum árum en hlutfall kvenkyns stjórnarformanna hefur farið úr 25% í 58% og hlutfall kvenna sem gegna stöðu framkvæmdastjóra farið úr 36% í 46% á síðustu tveimur árum. Ákvörðunarvald liggur hjá konum í 36% tilfella í orkugeiranum hér á landi, samanborið við 30% í fyrstu skýrslunni sem kom út.

Hlutfall kvenna í stöðum forstjóra, deildarstjóra og meðstjórnenda lækkar þó aðeins frá því síðasta úttekt var gerð fyrir tveimur árum, en á sama tíma fjölgar konum í almennum stöðugildum í orkugeiranum á Íslandi og eru þær nú 27% af heildinni.

Mynd: Lovísa Árnadóttir.