Aldargömul Elliðaárstöð

27. jún 2021

Orkuveitan

Rafstöðin við Elliðaár er 100 ára en þann 27. júní 1921 tóku Kristján konungur tíundi og Alexandrína drottning fyrstu tvær vélarnar formlega í notkun. Þessa var minnst með látlausri athöfn við Elliðaárstöðina í dag þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Bjarnason forstjóri OR fluttu ávörp.

Rafstöðin var opin almenningi á 100 ára afmælinu en sóttvarnarráðstafanir í aðdraganda afmælisdagsins settu vissulega svip á hátíðarhöldin og umfang þeirra. Auk hinnar formlegu dagskrár var boðið upp á fræðslugöngu um dalinn og leikhópurinn Lotta, sem gert hefur blettina við Rafstöðina að heimavelli sínum, skemmti ungum sem eldri.

Rafstöðin_100_vef-upplausn-23.jpg

Hrein orka – hreinn ávinningur

Rafvæðing Reykjavíkur hafði fjölþætt áhrif á mannlíf og menningu. Atvinnulíf breyttist með bættum tækjakosti en ekki síður bættri lýsingu á vinnustöðum og eldhús og þvottahús á heimilum hinna um það bil 20 þúsund íbúa Reykjavíkur tóku stakkaskiptum á næstu áratugum. Þá hefur Elliðaárdalur tekið stakkaskiptum frá því orkuvinnslan hófst en fyrir réttum 70 árum – á 30 ára afmæli Elliðaárstöðvar – hófu starfsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur skipulega skógrækt í dalnum. Hann er nú eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa.

Ýmsir viðburðir á afmæliári

Fyrsti viðburður í tilefni afmælisins var á Hönnunarmars, sem haldinn var í maímánuði í ár. Þá voru opinberaðar nýjar varanlegar innsetningar ungra hönnuða í Elliðaárhólma og boðið upp á hönnunargöngur í dalnum. Fleiri viðburðir eru ráðgerðir á afmælisárinu en hvort og hvenær til þeirra verður boðað ræðst af sóttvarnaraðgerðum.

Elliðaárstöð – þakklætisvottur OR til almennings

Á svæðinu í kringum Rafstöðina, stöðvarstjórahúsið, fjós og hlöðu sem þjónuðu upphaflegum starfsmönnum stöðvarinnar gengst Orkuveita Reykjavíkur nú fyrir uppbyggingu undir heitinu Elliðaárstöð. Það er ný upplifun í Elliðaárdal þar sem börn og fullorðnir fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik. Húsaþyrpingin við Rafstöðvarveg fær nýtt hlutverk þar sem skólahópar, fjölskyldur, útivistarfólk og aðrir geta kynnt sér vísindin og tæknina á bak við veitukerfin sem byltu lífsgæðum í Reykjavík – eða bara sullað og prílað. Áætlað er að svæðið opni almenningi síðar á afmælisárinu. Það er hugsað sem gjöf Orkuveitu Reykjavíkur til almennings með þakklæti fyrir aldarlöng afnot af ánum og dalnum.

Rafstöðin_100_vef-upplausn-93.jpg

Nýtt hlutverk Rafstöðvarinnar

Rafstöðin við Elliðaár og tengd mannvirki eru friðuð. Ekki hefur verið unnið rafmagn í Rafstöðinni frá árinu 2014. Þá gaf sig aðrennslislögn, sem liggur milli Rafstöðvarinnar og Árbæjarstíflu, og er metin ónýt. Eftir mat á fýsileika þess að halda raforkuvinnslu áfram varð niðurstaðan að leggja raforkuvinnsluna af en gefa þessum merku mannvirkjum í tækni- og atvinnusögu þjóðarinnar nýtt hlutverk. Búnaðurinn stöðvarinnar er að mestu leyti upprunalegur.

Rafstöðin_100_vef-upplausn-41.jpg

Fyrstu orkuskiptin aldargömul – þau þriðju standa yfir

Rafvæðing Reykjavíkur markaði fyrstu orkuskiptin í bænum með því að rafmagn fór í sívaxandi mæli að styðja við mannlíf og atvinnulíf þar sem áður var notast við olíu, kol, gas eða mó. Hitaveitan í Reykjavík, sem tekin var í notkun 1930 og leysti kol og olíu af hólmi, fól í sér önnur orkuskiptin. Nú standa þau þriðju yfir þegar rafmagn og aðrir umhverfisvænir orkugjafar eru sem óðast að leysa jarðefnaeldsneyti í samgöngum af hólmi.

Til marks um þetta og í tilefni afmælisins er nú einn rafmagnsvagna Strætós merktur Elliðaárstöð og verður hann það fram eftir afmælisárinu.

Strætó merktur Elliðaárstöð