Græn skuldabréf – straumar á Íslandi og erlendis

20. jan 2020

Orkuveitan

Opinn morgunverðarfundur OR, Viðskiptafræðideildar HÍ og IcelandSIF um útgáfu grænna skuldabréfa mánudaginn 27. janúar í Nauthóli

Dr. Ahmad A. Rahnema, sem er einn fremsti sérfræðingur heims á sviði fjármögnunar fyrirtækja og prófessor við alþjóðlega viðskiptaháskólann IESE í Barcelona, verður aðalfyrirlesari á opnum morgunverðarfundi um græn skuldabréf sem haldinn verður á Nauthóli, 27. janúar næstkomandi. Það eru Orkuveita Reykjavíkur, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og IcelandSIF, vettvangur um samfélagslega ábyrga skuldabréfaútgáfu, sem gangast fyrir fundinum.

Dr. Rahnema hefur gefið út fjölda bóka og greina á sérsviðum sínum og meðal annars beint sjónum að orkufyrirtækjum. Hann er nú að vinna að grein þar sem útgáfa OR á grænum skuldabréfum er tekin til skoðunar og verður hún meðal annars nýtt til kennslu við IESE.

Boðið verður upp á léttan morgunverð frá klukkan 8:00 en dagskrá fundarins hefst 8:30. Enginn aðgangseyrir er að fundinum.

Hvað eru græn skuldabréf?

Einn þáttur fjármögnunar fyrirtækja er útgáfa skuldabréfa sem seld eru fjárfestum. Árið 2019 gaf Orkuveita Reykjavíkur fyrst út græn skuldabréf og var fyrsta fyrirtækið til að skrá slík bréf á markaði hér á landi. Grænum skuldabréfum fylgja þeir skilmálar að það fé sem aflað er með útgáfunni sé varið til umhverfisvænna verkefna. Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið skipulega að umhverfismálum um langa hríð og tilgangur OR með útgáfunni er að fjármagna þau fjölmörgu grænu verkefni sem eru á döfinni hjá OR og dótturfyrirtækjunum. Má þar nefna raforkuvinnslu, stækkun hitaveitna, vatnsvernd, eflingu fráveitna, snjallvæðingu veitukerfa og metnaðarfull kolefnisbindingarverkefni.

Mikil eftirspurn var eftir skuldabréfunum í útboðum OR á síðasta ári og kaupendahópurinn fjölbreyttari en í fyrri skuldabréfaútgáfu fyrirtækisins.

Samstarfsaðilar OR að fundinum eru Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og IcelandSIF, en það eru íslensk samtök sem hafa þann tilgang að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Dagskrá

Morgunverður frá kl. 8:00

  • Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, setur fundinn
  • Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála OR, og Dröfn Harðardóttir, sérfræðingur á fjármálasviði OR – Hvers vegna að gefa út græn skuldabréf?
  • Dr. Ahmad A. Rahnema – Útgáfa grænna skuldabréfa – alþjóðlegir straumar og stefnur
  • Fyrirspurnir og umræður

Fundarstjóri verður Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri OR