Carbfix vinnur tvöfalt í XPRIZE kolefnisverðlaunum Elon Musk

22. apr 2022

Orkuveitan
„Við erum mjög stolt af því að hljóta svo afgerandi viðurkenningu í þessari virtu alþjóðlegu keppni þar sem samkeppnin var hörð,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
© Sigurður Ólafur Sigurðsson

Carbfix hefur ásamt samstarfsaðilum sínum unnið tvenn Milestone verðlaun í fyrri umferð XPRIZE Carbon Removal verðlaunanna, sem Elon Musk og Musk Foundation standa að.

Verðlaunin voru stofnuð til að veita alls 100 milljónum dollara til verkefna sem þykja líklegust til að ná árangri við föngun og förgun kolefnis.

Alls bárust yfir 1.100 umsóknir í samkeppnina. Í þessum fyrri áfanga völdu sjötíu dómarar fimmtán sigurlið sem hljóta eina milljón dollara hvert í verðlaunafé.

Vinningsumsóknirnar tvær sem Carbfix stendur að voru unnar í samstarfi við fyrirtæki sem hafa þróað nýstárlega tækni til að fanga CO2 úr andrúmslofti, annars vegar Heirloom og hins vegar Verdox. Þáttur Carbfix felst í að nýta tækni fyrirtækisins, sem góð reynsla er komin á, til að farga CO2 með öruggum og varanlegum hætti með steinrenningu neðanjarðar.

Allar umsóknir geta enn keppt um 80 milljónir dollara sem veittar verða aðalverðlaunahöfum árið 2025. Til að vinna aðalverðlaunin þurfa keppendur að hafa sýnt fram á raunverulega föngun og förgun á 1.000 tonnum af CO2 á ársgrundvelli, gert kostnaðaráætlun fyrir eina milljón tonna á ársgrundvelli, og lagt fram raunhæfa áætlun um að ná 1.000 milljónum tonna á ársgrundvelli með sjálfbærum hætti í framtíðinni.

„Við erum mjög stolt af því að hljóta svo afgerandi viðurkenningu í þessari virtu alþjóðlegu keppni þar sem samkeppnin var hörð,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. „Við höfum þegar beitt tækni okkar til steinrenningar neðanjarðar í tíu ár. Við vinnum nú að því að beita henni á mun stærri skala. Þessi verðlaun, og samstarfið sem liggur að baki verkefnunum, munu hjálpa okkur til þess.“

„Ódýr og varanleg föngun og förgun kolefnis er forsenda þess að við náum loftslagsmarkmiðum okkar, en kostnaður við lofthreinsun (e. Direct Air Capture) þarf að lækka verulega til að hún geti haft marktæk áhrif á lofstlagsbreytingar,“ segir Shashank Samala, forstjóri og annar stofnenda Heirloom. „Lykillinn að hagkvæmni er að nýta ódýr og algeng jarðlög bæði til föngunar og förgunar. Við erum hæstánægð með samstarfið við Carbfix í þessum sigri í fyrri áfanga XPRIZE og í þeirri vinnu að gera fyrsta áfanga verkefnis okkar að veruleika.“

„Það er mjög ánægjulegt að hafa unnið til þessara verðlauna með samstarfsaðilum okkar hjá Carbfix,“ segir Dr. Brian Baynes, forstjóri Verdox. „Kolefnisföngun og -förgun er að okkar mati forsenda fyrir sjálfbærri þróun mannkyns, en kostnaður og orkuþörf þurfa að lækka verulega til að henni verði beitt á stórum skala. Við stofnuðum Verdox fyrir tveimur árum á grundvelli nýrrar tækni okkar til kolefnisföngunar, sem byggist á rafefnaferlum og dregur þannig úr orkuþörf kolefnisföngunar um allt að 70%. Viðurkenningar XPRIZE á möguleikum Verdox og Carbfix er enn eitt merkið um að framtíð kolefnisföngunar og -förgunar liggur í rafvæðingu.“

Um Carbfix:

Carbfix varð fyrst fyrirtækja í heiminum til að steinrenna koldíoxíð neðanjarðar og hefur beitt þeirri tækni í tíu ár á Íslandi. Ferlið felst í að blanda koldíoxíði í vatn og dæla því niður í basalt, þar sem það breytist með varanlegum og öruggum hætti í stein á innan við tveimur árum með tækni sem hermir eftir og hraðar náttúrulegum ferlum. Nánari upplýsingar á www.carbfix.is.

Um Verdox:

Verdox var stofnað árið 2019 af Dr. Brian Baynes, prófessor T. Alan Hatton og Dr. Sahag Voskian til að gera skalanlega og hagkvæma kolefnisföngun að veruleika. Fyrirtækið byggir á tækni sem upphaflega var þróuð við MIT háskólann og gengur út á að fanga koldíoxíð úr andrúmslofti og frá iðnaði með rafefnaferlum sem minnka orkuþörf um 70% samanborið við hefðbundnar aðferðir. Nánari upplýsingar á www.verdox.com.

Um Heirloom:

Berglög eru ein mikilvægasta kolefnisgeymsla jarðar. Koldíoxíð í andrúmslofti og vatni binst berginu á mjög löngum tíma í náttúrunni og breytist þannig varanlega í stein. Lofthreinsitækni Heirloom flýtir fyrir þessu náttúrulega ferli og gerir að verkum að steintegundir binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu á fáeinum dögum í stað nokkurra ára. Nánari upplýsingar á www.heirloomcarbon.com.