OR er einn af aðalstyrktaraðilum Iceland Geothermal Conference ráðstefnunnar

12. júl 2023

Orkuveitan
Hera Grímsdóttir og Rósbjörg Jónsdóttir handsöluðu samstarf OR og Orkuklasans á dögunum.
© Jóhanna Rakel

Þær Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastýra Orkuklasans skrifuðu undir samkomulag í góða veðrinu á dögunum þess efnis að OR yrði fyrsti Platinum þátttakandinn að IGC – Iceland Geothermal Conference sem fram fer í Hörpu 28.-30. maí á næsta ári.

IGC er alþjóðleg ráðstefna sem verður haldin í fimmta sinn árið 2024. Þar verður kastljósinu beint að þeim fjölmörgu og fjölbreyttu möguleikum sem uppbygging í jarðhitageiranum hefur í för með sér. Á ráðstefnunni verður farið yfir hvernig þessi geiri getur stuðlað að félagslegri velmegun og auknu öryggi.

„Við erum stolt af því að vera fyrsti styrktaraðili þessarar mjög svo þörfu ráðstefnu. Það er gríðarlega mikið að gerast í þessum geira í heiminum öllum og getum við hér á Íslandi verið leiðandi í þessum málum. Vinnsla á endurnýjanlegri orku og nýting jarðvarma skiptir lykilmáli þegar kemur að baráttunni við loftslagsvána, “segir Hera.