Átak í innviðum fyrir rafbíla í Reykjavík

4. apr 2019

Orkuveitan
  • 30 hleðslur við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar
  • hleðslur á landi borgarinnar víðsvegar um borgina
  • 120 milljóna króna sjóður til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði

Í dag var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Verkefnin, sem byrjað verður á nú í ár og stendur í þrjú ár, felur í sér að komið verður upp hleðslum fyrir rafbíla við 30 starfsstöðvar Reykjavíkurborgar, 20 hleðslur á ári næstu þrjú árin verða settar upp eftir ábendingar frá íbúum og þá munu Reykjavíkurborg og OR stofna sjóð sem úthlutað verður úr til húsfélaga fjölbýlishúsa sem hafa sett upp hleðslubúnað fyrir rafbíla á sínum lóðum.

Það voru þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sem undirrituðu samkomulagið á ársfundi OR í Hörpu nú síðdegis.

Þrír þættir samkomulagsins

Í fyrsta lagi verða byggðir upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á 30 fyrirfram ákveðnum stöðum við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þeir sjást á meðfylgjandi uppdrætti.

Á allt að 60 stöðum að auki – 20 á ári næstu þrjú árin – verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á borgarlandi með það að markmiði að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð. Óskað verður eftir tillögum íbúa um staðsetningar. Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar til samræmis við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnisjónarmið. 

Loks munu OR og Reykjavíkurborg leggja árlega 20 milljónir króna hvor í þrjú ár í sjóð til að úthluta styrkjum til húsfélaga íbúðarhúsa sem koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla. Auglýst verður eftir umsóknum og úthlutunarreglur kynntar betur.

OR og Veitur eru reiðubúin til samsvarandi samstarfs við önnur sveitarfélög á starfssvæði þeirra.

Útboð á hleðslubúnaði

Hleðslustæðin munu verða kyrfilega merkt og eingöngu ætluð rafbílum. Uppsetning og rekstur sjálfs hleðslubúnaðarins, sem settur verður upp fyrir almenning, verða boðin út. Gert er ráð fyrir að hleðslan verði seld á þessum bílastæðum.

Reykjavíkurborg leggur til stæðin, Veitur leggja til heimtaugar og OR fé í styrktarsjóðinn. Gert er ráð fyrir að hámarksstyrkur til húsfélags nemi 1,5 milljónum króna og verði að hámarki 2/3 hlutar kostnaðar við að koma hleðslum upp við fjölbýlishúsið. Samkomulagið felur í sér að þriggja manna samstarfsnefnd samningsaðila heldur utan um verkefnið.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

„Reykjavíkurborg hefur verið leiðandi í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti, breyttar ferðavenjur og þétting byggðar eru lykilatriði til að ná árangri í minni útblæstri og umhverfisvænar samgöngur eru lykilatriði í grænni borg. Við sjáum sífellt fleiri hjóla, nota strætó og ganga og nú komum við til móts við þá íbúa sem vilja vera á rafbíl en vantar tækifæri til hleðslu nærri heimili. Við viljum sjá rafvæðingu samgangna ganga hratt og þetta er fyrsta skrefið í því. Í raun viljum við sjá þetta gerast á sama hraða og hitaveituvæðingin var á sínum tíma í Reykjavík.“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna

Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna líkir orkuskiptum í samgöngum við hitaveituvæðinguna á síðustu öld, en Veitur þjóna um þremur af hverjum fjórum landsmönnum með hitaveitu. „Það er afar ánægjulegt að rafdreifikerfið okkar er komið í svipuð spor og hitaveitan á sínum tíma; að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti þar sem við höfum fundið aðrar og grænni lausnir. Það sér það hver maður að við náum ekki sameiginlegum loftslagsmarkmiðum okkar nema með því að skipta um orkugjafa í samgöngum. Veitur munu ekki liggja á liði sínu í þessu stóra umhverfisverkefni frekar en öðrum.“

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR

„Ísland er kjörlendi rafbíla,“ segir Bjarni Bjarnason forstjóri OR. „Hér er rafmagn tiltölulega ódýrt, það er hreint og við eigum nóg af því. Langflestar ferðir eru stuttar og við búum að öflugum innviðum sem Orka náttúrunnar hefur byggt upp fyrir lengri ferðir. Við höfum heyrt í mörgu áhugasömu fólki um rafbíla, sem ekki hefur átt kost á því að hlaða bíl heima við. Með þessu samkomulagi erum við að taka fyrsta skrefið til að koma á móts við þann vaxandi hóp.“

Uppbygging við starfstöðvar Reykjavíkurborgar

Uppdráttur hér að neðan sýnir hvar hleðslubúnaður verður settur upp við 30 starfsstöðvar borgarinnar. Íbúar munu hafa áhrif hvar allt að 60 að auki verða í borgarlandinu.

Tillögur að staðsetningum hlaða í hverfum Reykjavíkur