Góð vinnustaðarmenning hjá OR – ábendingar um úrbætur

19. nóv 2018

Orkuveitan
 • Niðurstöður úttektar á starfsmannamálum hjá OR liggja fyrir
 • Góð vinnustaðarmenning hjá OR – ábendingar um úrbætur
 • Uppsagnir tveggja stjórnenda réttmætar
 • Skipulega verður unnið úr ábendingum innri endurskoðanda

Vinnustaðarmenning hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er niðurstaða óháðrar úttektar á starfsmannamálum hjá OR samstæðunni. Þá kemur fram að uppsagnir þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar hjá Orku náttúrunnar (ON) séu taldar réttmætar. Ábendingar um framkvæmd uppsagnanna eru í úttektinni og hvatt er til að skerpt verði á verkferlum.

„Það er mikilvægt að nú liggur fyrir óháð og ítarleg skoðun á þeim atburðum sem urðu að brennidepli opinberrar umræðu nú í haust og einnig ábendingar um þá lærdóma sem við þurfum að draga af þeim,“ segir Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Í heildina er hún ánægð með niðurstöðu könnunar á vinnustaðarmenningu hjá OR og dótturfyrirtækjunum. „Í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist þá var mikilvægt að skoða hvort brotið hafði verið á fólki eða hvort að ásakanir um óheilbrigða vinnustaðamenningu ættu við rök að styðjast. Niðurstöðurnar staðfesta að svo er ekki. Við tökum ábendingarnar í skýrslunni alvarlega og munum vinna skipulega úr þeim. Áreitni og einelti eiga ekki að líðast.“

Ásakanir teknar alvarlega

Niðurstöður úttektarinnar eru í takti við þann mælanlega árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum innan Orkuveitu Reykjavíkur. Tekist hefur að útrýma kynbundnum launamun innan OR og fyrirtækið nýtur jafnlaunavottunar Jafnréttisstofu. Fyrirtækið hefur á síðustu árum hlotið jafnréttisviðurkenningar frá Jafnréttisráði og Samtökum atvinnulífsins. Nær allir starfsmenn tóku þátt í #metoo vinnustofum í vor vegna þess að fyrirtækið hefur lagt áherslu á að skapa öruggt og heilbrigt vinnuumhverfi. Stjórnendur fyrirtækisins, sem eru að meirihluta konur, hafa fengið fræðslu um #metoo og lögin.

Ásakanir um að uppsögn millistjórnanda hjá ON hefði verið óréttmæt og til marks um óheilbrigða vinnustaðarmenningu voru því teknar mjög alvarlega. Þann 19. september síðastliðinn óskaði stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eftir því að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar, sem jafnframt sinnir hlutverki innri endurskoðunar hjá OR, gerði óháða úttekt á tilteknum starfsmannamálum og vinnustaðarmenningunni með liðsinni utanaðkomandi sérfræðinga. Samhliða ákvörðun um úttekt féllst stjórn á ósk forstjóra OR um að stíga til hliðar meðan á úttektinni stæði til að tryggja trúverðugleika hennar.

Innri endurskoðun leitaði til viðurkenndra utanaðkomandi sérfræðinga á þessu sviði. Niðurstöðurnar eru nú aðgengilegar á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur að undanskildum þeim hluta úttektarinnar sem fyrirtækinu er ekki heimilt að birta vegna persónuverndarlaga. Það er í höndum þeirra sem þar er fjallað um hvort viðkomandi kaflar koma fyrir almenningssjónir. 

Helstu niðurstöður

Vinnustaðarmenning
Dagana 6.-9. október gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun meðal starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga til að greina vinnustaðarmenningu og meta umfang og eðli kynferðislegrar áreitni hjá OR. Svarhlutfall var 88%. Helstu niðurstöður eru:

 • Almennt er starfsfólk OR ánægt í starfi. Starfsánægja er meiri meðal kvenna hjá OR heldur en karla. Starfsánægja er umtalsvert meiri en mælist almennt á íslenskum vinnumarkaði.
 • 0,7% starfsmanna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu hjá OR á síðustu 12 mánuðum. Það er talsvert minna en gengur og gerist á vinnumarkaði.
 • 3% starfsmanna hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu hjá OR síðustu 12 mánuði. Það er einnig minna en gengur og gerist á íslenskum vinnustöðum.
 • Starfsmenn OR eru ánægðir með yfirmenn sína og telja þá koma vel fram við starfsfólk.
 • Þegar spurt er um hegðun sem fellur undir skilgreiningu kynferðislegrar áreitni án þess að nefna kynferðislega áreitni hækkar hlutfall núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem segjast hafa orðið fyrir slíkum atvikum.
 • Fyrrverandi starfsfólk, sem ýmist hafði verið sagt upp eða sagt upp sjálft, var almennt neikvæðara í garð fyrirtækisins.

Uppsagnir stjórnenda hjá ON
Úttektarteymið ræddi við fjölda fólks innan og utan OR, rýndi gögn og dró af þeim ályktanir. Á meðal niðurstaðna er:

 • Uppsagnir tveggja stjórnenda hjá Orku náttúrunnar, þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur forstöðumanns hjá ON og Bjarna Más Júlíussonar framkvæmdastjóra ON, í september síðastliðnum voru réttmætar.
 • Áslaug Thelma Einarsdóttur fékk skýringar á uppsögn sinni en frekari skýringum sem boðnar voru fram á fundi var hafnað. Ábending er í skýrslunni um að hún hefði átt að fá skriflegar skýringar þegar við uppsögn.
 • Ábendingar koma fram um að skerpa þurfi á verklagi og ferlum varðandi uppsagnir.
 • Lagt er til að orðsporsáhætta vegna umræðu á borð við þá sem skapaðist verði metin sérstaklega og aðgerðaáætlanir fyrirtækisins uppfærðar.
 • Lagt er til að fyrirkomulag við skipan stjórna dótturfélaga verði endurskoðað.

Brynhildur Davíðsdóttir, formaður stjórnar OR:

Það er mikilvægt að nú hafa staðreyndir málsins verið leiddar fram. Það var full ástæða til að fara vel yfir þessi mál. Áreitni á vinnustað á ekki að líðast og ásakanir um slíkt á að rannsaka. Við getum gert betur og munum gera það en mér finnst skýrslan sýna að sú mynd sem dregin var upp af þessum vinnustað var ekki sanngjörn.

Helga Jónsdóttir, forstjóri OR:

Niðurstaða þessarar óháðu úttektar sýnir að jafnvel í þessu góða fyrirtæki er hægt að gera betur. Síðar í vikunni munum við hittast öll sem störfum hjá Orkuveitusamstæðunni og fara yfir úttektina í sameiningu. Hún er í fullu samræmi við vinnustaðagreiningar, sem hér hafa verið gerðar árum saman til að leggja grunn að stöðugum úrbótum. Staðfest er að það er mjög margt gott á vinnustaðnum en líka leitt fram ýmislegt sem hægt er að bæta, bæði í verklagi og menningu. Sameiginleg úrvinnsla allra starfsmanna úr óháðu úttektinni verður mikilvægt veganesti inn í tillögugerð til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Mig langar sérstaklega til að þakka starfsfólkinu fyrir stillingu og æðruleysi sem það hefur sýnt meðan ágjöfin var sem mest og rangar fullyrðingar áttu sviðið. Við þurfum líka að ræða hvernig svoleiðis ástand getur skapast og draga af því lærdóma.

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar:

Það er gott að niðurstöðurnar liggja nú fyrir. Þetta hefur verið krefjandi tími hjá starfsfólki Orku náttúrunnar en niðurstöðurnar sýna að vinnustaðarmenningin er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Samskipti og samstarf hafa almennt einkennst af virðingu og heiðarleika eins og starfsmannakannanir hjá okkur hafa sýnt en við munum hlusta á ábendingar og vinna saman að því að gera vinnustaðinn enn betri.

Skýringarmyndir

Myndritin hér að neðan sýna þróun nokkurra þátta í könnunum meðal starfsfólks OR samstæðunnar. OR gerir reglulega kannanir með starfsfólks, þá síðustu í maí 2018. Þátttaka er jafnan um 95%. Auk heildarniðurstöðu í hverjum þætti er sýndur samanburður við íslenskan vinnumarkað samkvæmt gagnagrunninum Ísland í vinnunni (ÍÍV).

Starfsánægja á kvarðanum 1-5

Starfsánægja

Ánægja með stjórnendur á kvarðanum 1-5

Ánægja með næsta yfirmann

Kynferðisleg áreitni - hlutfall starfsfólks

Áreitni

Einelti - hlutfall starfsfólks

Einelti

Úttektarteymið:

Hallur Símonarson, innri endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur
Jenný Stefanía Jensdóttir, verkefnastjóri í rannsóknarendurskoðun IER
Kristín Vilhjálmsdóttir, skrifstofustjóri hjá IER
Svala Guðmundsdóttir, dósent í mannauðsstjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands
Inga Björg Hjaltadóttir, lögmaður hjá Attentus – mannauður og ráðgjöf
Sigríður Þorgeirsdóttir, lögfræðingur hjá Attentus - mannauður og ráðgjöf
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, undir stjórn Guðbjargar Andreu Jónsdóttur forstöðumanns sá um könnun meðal starfsfólks og úrvinnslu.

Vinnustaðarmenning og mannauðsmál hjá OR - nóvember 2018 IE