Aukin útbreiðsla CarbFix í nýju félagi

27. nóv 2019

Orkuveitan

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt, með fyrirvara um staðfestingu eigenda OR, að stofna opinbert hlutafélag um kolefnisbindingaraðferðina CarbFix, sem nýtt hefur verið við Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri síðustu ár.

Markmið OR með því að skilja verkefnið frá kjarnastarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur eru einkum að;

  • ná auknum árangri í loftslagsmálum með því að sem flestir hér á landi og í útlöndum eigi kost á því að nýta aðferðina til að smækka kolefnisspor sitt,
  • koma í veg fyrir að vaxandi starfsemi í kringum CarbFix trufli annað rannsóknar- og nýsköpunarstarf innan OR,
  • afmarka og draga úr fjárhagslegri áhættu fyrir grunnþjónustu OR-samstæðunnar og
  • standa vörð um hugverkarétt að verkefninu.

Væntanlegt hlutafélag verður alfarið í eigu OR.

Samkeppnishæfur kostnaður

CarbFix verkefnið var sett á fót sem alþjóðlegt vísindasamstarf OR, Háskóla Íslands og erlendra vísindastofnana árið 2007. Aðferðin er enn í þróun og OR leiðir nú tvö fjölþjóðleg rannsóknar- og nýsköpunarverkefni, sem eru afsprengi CarbFix; CarbFix2 og GECO. OR og samstarfsaðilar að verkefnunum hafa hlotið margvíslega alþjóðlega styrki til þróunar á aðferðinni, mest úr rannsóknaráætlunum ESB. Þannig fékk GECO-verkefnið um tvo milljarða króna úr Horizon 2020 áætlun ESB. Stefnt er að því að nýja félagið sæki áfram um slík framlög.

Kostnaður við kolefnisförgun við Hellisheiðarvirkjun með CarbFix-aðferðinni er um 3.000 krónur á hvert tonn koltvíoxíðs. Vonast er til að með frekari þróun aðferðarinnar og stærðarhagkvæmni geti kostnaðurinn víða orðið enn lægri en þetta er ýfið lægri kostnaður en við að kaupa losunarheimildir á evrópskum markaði þessa dagana. Verðið er sveiflukennt en er nú um 3.300 krónur fyrir tonnið.

Afmörkun áhættu

Mikill áhugi hefur verið á nýtingu CarbFix-aðferðarinnar með aðlögun hennar að ýmsum iðnaðarferlum. Fjárfesting í loftlagsverkefnum er þó ekki áhættulaus. Þess vegna er það eitt af markmiðunum með stofnun sérstaks félags um CarbFix-aðferðina að afmarka fjárhagslega áhættu af þátttöku OR um leið og skýrt umboð er veitt til samstarfs hér á landi og erlendis. OR leggur fyrirtækinu til lágmarks hlutafé, 4 milljónir króna. Jafnframt ábyrgist OR rekstur félagsins á grundvelli fyrirliggjandi rekstraráætlunar fyrir fyrstu árin. Það er kostnaður sem OR hefði hvort eða er lagt í en gert er ráð fyrir að starfsmenn verði fimm.

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR

Það er leitun að jafn árangursríku rannsóknar- og nýsköpunarverkefni og CarbFix. Það hefur staðið undir okkar björtustu væntingum um árangur í loftslagsmálum og þess vegna ekki að undra að mikill áhugi á nýtingu aðferðarinnar hér á landi og í útlöndum. Orkuveita Reykjavíkur vill svara þeirri eftirspurn um leið og staðinn er vörður um kjarnastarfsemi samstæðunnar, að vinna orku og reka veitukerfi fyrir íslenskan almenning.

Loftslagsváin er viðfangsefni alls mannkyns. Sem þegn í samfélagi þjóðanna sem styður við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna lítur OR svo á að það sé samfélagslegur ábyrgðarhluti að greiða leið sem flestra til að nýta sér CarbFix-aðferðina. Fyrirtækið, sem við leggjum til að verði stofnað um verkefnið, verður því ekki hagnaðardrifið. Við gerum heldur ekki ráð fyrir að niðurgreiða starfsemina því einn helsti styrkur CarbFix-aðferðarinnar er að kostnaður við innleiðingu hennar er samkeppnisfær við verð á losunarheimildum eins og það er í dag.

Opinn fræðslufundur um CarbFix

CarbFix verkefnið hefur hlotið mikla athygli á alþjóðlegum vettvangi. Það hefur verið kynnt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, um það skrifaður fjöldi ritrýndra greina í vísindatímaritum og almennir alþjóðlegir fjölmiðlar hafa verið eljusamir í umfjöllun um verkefnið.

Þriðjudaginn 10. desember næstkomandi gefst almenningi kostur á að kynna sér í hverju verkefnið felst, hvernig rekstur þess hefur gengið og í hvaða áttir vísindafólk í verkefninu er að horfa þessa dagana. Fundurinn verður í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 og hefst með kaffi og kleinum klukkan 16:00 og stendur til kl. 18:00.

Nánari upplýsingar um fundinn eru á Facebooksíðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Nýlegt framtak OR og dótturfyrirtækja í loftslagsmálum: