Heill heimur vísinda - OR samstæðan á Vísindavöku

6. okt 2023

Orkuveitan
© Jóhanna Rakel

OR samstæðan tók þátt í Vísindavöku Rannís sem fram fór í Laugardalshöll þann 30. september síðastliðinn. Viðburðurinn var virkilega vel heppnaður og þar gafst gott tækifæri til að miðla á lifandi hátt upplýsingum um verkefni, rannsóknir og nýsköpun sem blómstrar hjá samstæðunni til þeirra fjölmörgu gesta sem heimsóttu okkur í Höllina en samkvæmt talningu sóttu ríflega 6500 manns Vísindavökuna heim að þessu sinni.

Starfsfólk samstæðunnar var með ýmislegt til sýnis og fróðleiks og voru gestir fræddir, m.a. um Vatnsmiðlalíkön Veitna, sem eru stafræn hermilíkön sem hjálpa til við að spá fyrir um framtíðarverkefni, eins og uppbyggingu hverfa, og blöndunarverkefnið sem unnið er af sérfræðingum í Rannsóknum og nýsköpun OR, sem miðar að því að geta blandað saman lághitavatni af höfuðborgarsvæðinu og upphituðu grunnvatni sem kemur frá jarðhitavirkjunum. Vísindamiðlarar frá Jarðhitasýningunni voru með fræðslu um hvernig rafmagn og heitt vatn er framleitt í Hellisheiðavirkjun og vísindamiðlarar frá Elliðaárstöð kenndu gestum um orku og vísindi og buðu þeim að framkvæma tilraun um þrýsting og suðumark vatns. Þá sagði starfsfólk Carbfix frá því hvernig þau breyta koltvísýringi (CO2) í stein og gátu gestir kynnt sér ferlið við "kolefnissteinun" þar sem koldíoxíð er sprautað niður í jarðlög fyrir varanlega geymslu.

Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night. Verkefnið er styrkt af Marie Sklodowska-Curie undir Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.